Erlent

Bush í vondum málum

Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu eftir ellefu daga og kjósa sér forseta. Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að George W. Bush hefur nokkurra prósenta forskot á andstæðing sinn, John Kerry. Þar með er þó ekki sjálfgefið að Bush muni bera sigur úr býtum. Að mati breska tímaritsins The Economist ætti Bush að hafa áhyggjur af stöðu mála ef hann mælist undir 50 prósentum í könnunum. Eftir skylmingar frambjóðendanna í sjónvarpi hefur fylgi forsetans í könnunum farið niður fyrir þetta mark enda þótt fylgi Kerrys sé yfirleitt nokkuð minna. Mat sitt byggir blaðið á ákveðinni tilhneigingu í kosningum síðustu áratuga en samkvæmt henni er fylgi sitjandi forseta nánast alltaf það sama í kosningum og í skoðanakönnunum en andstæðingur hans fær að jafnaði fjórum prósentum meira í kosningum en í könnunum. Með öðrum orðum, sitjandi forseti sem mælist undir 50 prósentum í skoðanakönnunum þarf að herða sig talsvert en andstæðingur hans sem fær 46 prósenta fylgi á sama tíma er hins vegar í ágætum málum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×