Innlent

Krufning kostar 95 þúsund

Það kostar 95 þúsund krónur að kryfja lík á Landsítala háskólasjúkrahúsi. Innifalið er líkskurður, vefjarannsóknir, sýkla- og veirurannsóknir, skýrslugerð og samskipti málsaðila. Magaspeglun kostar hinsvegar 6.152 krónur og viðtal og skoðun augnlæknis 2.700 krónur. Þetta og fleira kemur fram í gjaldskrá LSH og miðast verð við staðgreiðslu eða greiðslu með kreditkorti. Sé ekki greitt við komu á spítalann bætist við 300 króna innheimtukostnaður. Þurfi að leiða barnsfaðernismál til lykta á rannsóknarstofu spítalans í réttarlæknisfræði getur séð á pyngjunni. Séu þrír aðilar til rannsóknar, þ.e. barn, móðir og einn karl, kostar rannsóknin 110 þúsund. Þurfi að rannsaka blóð úr fleiri körlum kostar það 12.500 krónur á mann. Röntgenmyndatökur geta líka kostað sitt, eða allt frá 2.152 krónum og upp í 18 þúsund. Fer gjaldið eftir fjölda mynda og þeim líkamshlutun sem myndaðir eru. Þurfi hjón að leita sér meðferðar á geðsviði spítalans þurfa þau að reiða fram 5.575 krónur fyrir hvert skipti og er þá miðað við einnar og hálfrar stundar viðtal í senn. Foreldraviðtal hjá barnageðlækni er tæpum þúsund kalli dýrara. Kostnaður við að tjasla saman nefbroti nemur rúmum fimm þúsund krónum, viðtal og skoðun nýrnalæknis kostar 3.227 krónur en sami pakki hjá húð- og kynsjúkdómalækni er fimm hundruð krónum ódýrari. Ofantalið miðast við fólk sem er sjúkratryggt á Íslandi. Öryrkjar, aldraðir og börn greiða minna og dágóður afsláttur fæst ef sjúklingar bera afsláttarkort. Sé fólk ekki sjúkratryggt þarf það að reiða fram háar fjárhæðir fyrir þjónustu spítalans. Sólarhringsdvöl á gjörgæslu- og vökudeildum LSH kostar 244.000 en gjaldið er talsvert lægra sé legið á öðrum deildum. Verð einstakra aðgerða getur svo numið frá rúmum 90 þúsund krónum upp í rúm þrettán hundruð þúsund. Allt eftir eðli og umfangi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×