Menning

Þjóðverjar velja Audi

Lesendur hins þýska bílablaðs Auto Zeitung velja bílinn sem fær verðlaunin Auto Trophy 2004. Bílar frá Audi-verksmiðjunni fengu þrenn verðlaun auk þess sem bæði Seat og Lamborghini hlutu verðlaun en þeir heyra undir Audi-væng Volkswagen samsteypunnar. Audi-fólksbílarnir A4, A6 og A8 fengu þrenn af eftirsóttustu verðlaunum ársins. Lesendur Auto Zeitung kusu þá í efsta sæti í flokkum millistórra fólksbíla, stórra fólksbíla og lúxusbíla. Lamborghini Murciélago og Seat Altea náðu einnig góðum árangri og voru kjörnir bestu innfluttu bílarnir í sínum flokkum. Alls bárust rúmlega 84.000 atkvæði en lesendur Auto Zeitung og tímaritsins TV Movie tóku þátt í kosningunni. Audi A8 fékk alls 28,2 af hundraði atkvæða í lúxusflokki eða nær tvöfalt fleiri en bíllinn sem varð í öðru sæti. Hinn nýi Audi A6 fékk enn hærra hlutfall atkvæða í flokki stórra fólksbíla, alls 34,7 af hundraði kjósenda völdu þennan bíl sem sitt uppáhald í þessum flokki bíla. Bíllinn sem var í öðru sæti var 13 prósentustigum á eftir A6. Audi A4 sigraði í flokki millistórra fólksbíla, fékk 23,2 af hundraði atkvæða lesenda og hafði gott forskot á báða sína helstu þýsku keppinauta. Audi-fólksbílar hafa nú unnið hin eftirsóttu Auto Trophy verðlaun alls 25 sinnum þau 17 ár sem þeim hefur verið úthlutað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×