Innlent

Slæmt upplýsingastreymi hjá FB

Þess sjást engin merki, hvorki í námsvísi né á heimasíðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti, að skólinn veki athygli nemenda á því að sum stúdentspróf skólans veita ekki aðgang að Háskóla Íslands. Stór hluti þeirra nemenda sem útskrifast sem stúdentar úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um áramótin fær ekki inni í Háskóla Íslands þar sem skólinn telur stúdentspróf þeirra ekki uppfylla kröfur skólans til að fá inngöngu. Aðstoðarmaður háskólarektors sagði í fréttum okkar í gær að stúdentspróf væri einfaldlega ekki lengur bara stúdentspróf; sum duga til náms í Háskóla Íslands, en önnur ekki. Svona hefði þetta verið síðan ný lög tóku gildi um framhaldsskóla árið 1999. Hann segir Háskólann kynna þetta vel fyrir öllum nýnemum framhaldsskólanna en að hugsanlega kynnu skólarnir sjálfir þetta ekki nægjanlega vel fyrir nemendum. Áfangastjóri Fjölbrautaskólans í Breiðholti taldi þetta vel kynnt fyrir nemendum en vísbendingar eru um að svo sé alls ekki. Ef rýnt er á heimasíðu skólans sér þess ekki merki að stúdentspróf af viðskiptabraut, listnáms- eða iðnaðarbrautum dugi ekki til að fá inni í Háskólanum. Í námsvísi skólans kemur hvergi fram að þessi stúdentspróf séu síðri en önnur, öðru nær, þar stendur til að mynda að nemendur listnámsbrautar geti bætt við sig og aflað sér þannig almennra réttinda til náms á háskólastigi með því að ljúka stúdentsprófi. ´ Þá segja nemendur sem fréttastofa hefur rætt við að umsjónarkennarar veki enga athygli á þessu. Það er því ljóst að stjórnendur FB verða að bæta upplýsingastreymi sitt til nemenda til að komast hjá óánægju á borð við þá sem nú ríkir á meðal komandi útskriftarhóps.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×