Innlent

Þriðjungur greiðir ekki skatt

35% fólks greiðir engan tekjuskatt og nýtur þar með ekki 1% tekjuskattslækkunar sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Bolli Þór Bollason, yfirmaður efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra sagði hins vegar aðspurður þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið á föstudag að tekjuskattslækkunin gagnaðist "nærri öllum" enda borguðu meir en 80% tekjuskatt. Samkvæmt upplýsingum Bolla Þórs borga 65% en ekki 80% tekjuskatt. Hafa ber í huga að 80% skattgreiðenda eru yfir skattleysismörkum en hluti þeirra borgar útsvar en engan tekjuskatt. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins byggði viðbrögð sín við skattahlið fjárlagafrumvarpsins á þessum röngu tölum og sagði tekjuskattsgreiðendum hafa fjölgað vegna þess að persónuafsláttur hefði ekki hækkað í samræmi við verðhækkanir. Fjármálaráðherra hefur ekki sinnt margítrekuðum óskum Fréttablaðsins um viðtal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×