Menning

Gufaðist um tækjasalinn

"Ég er nýbúin að fá mér árskort í Laugum," segir Þrúður Vilhjálmsdóttir leikkona með stolti þegar hún er spurð hvaða líkamsrækt hún stundi. "Tækjasalurinn er minn staður þessa stundina og er ég nýbúin að læra á hann, en fram að því gufaðist ég bara um tækjasalinn," segir Þrúður sem fékk einkaþjálfara til að setja saman fyrir sig prógramm. "Prógrammið er ég með á blaði og ég þarf alltaf að kíkja á það sem er áreiðanlega mjög nördalegt en ég hef nú bara húmor fyrir því," segir Þrúður. Hún er þessa stundina að æfa leikritið Faðir Vorið sem er nýtt íslenskt leikrit eftir Hlín Agnarsdóttur og verður frumsýnt í lok október. "Við erum að æfa alla daga en ég fékk hópinn til að byrja snemma á morgnana svo við gætum hætt fyrr og ég mætt í ræktina. Ég segi það ekki að ég mætti alveg vera duglegri," segir Þrúður hlæjandi. "Annars erum við svo heppin að hafa Jóhann Frey Björgvinsson sem kóreógrafer sýningarinnar og hann tekur okkur í Pilates upphitun fyrir æfingar sem er mjög heppilegt," segir Þrúður sem þykir öll hreyfing vera af hinu góða. "Mér líður svo vel þegar ég hreyfi mig," segir Þrúður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×