Innlent

Stefnuræða gagnrýnd

Stjórnarandstæðingar fundu fyrstu stefnuræðu Halldórs Ásgrímssonar flest til foráttu í sjónvarpsumræðunum á Alþingi í gærkvöld. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar og fyrsti ræðumaður stjórnarandstæðinga, hóf stórskotaárásina á Halldór með því að gagnrýna að hann skyldi ekki víkja aukateknu orði að Írak og stuðningi ríkisstjórnarinnar við Bandaríkin. Sagði hann ákvörðun Halldórs og forvera hans, Davíðs Oddssonar, um að setja Ísland á lista stuðningsríkja Bandaríkjanna dæmi um "ráðherrarræði". Það fyrirbæri hefði líka komið við sögu þegar "frændi og briddsfélagi" Davíðs Oddssonar hefðu verið skipaðir í Hæstarétt. "Þingið er í gíslingu ráðherraræðisins og nú hafa þeir læst krumlunum í Hæstarétt" sagði Össur Skarphéðinsson. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði fréttir um fjárlagaferil Geirs H. Haarde fjármálaráðherra að umræðuefni og sagði fréttamenn misskilja hvað lesa bæri út úr ríkisreikningi. Þær væru skráð óregluleg og ófyrirsjáanleg gjöld og hvernig fjárlagaafgangi væri varið til dæmis með greiðslum í lifeyrissjóði ríkisstarfsmanna, til Seðlabankans og fleira. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, beindi spjótum sínum að miklum viðskiptahalla og sagði að það ríkti "samsæri þagnarinnar" í þjóðfélaginu þar sem hver reyndi að ljúga því að öðrum að allt væri í lagi. Þá sagði hann að Framsóknarflokkurinn væri að framkvæma stefnu "íhaldsins" í skattamálum. Ríkisstjórnin hefði ekki aðeins sömu stefnu og Bush í Írak heldur líka í skattamálum. "Munurinn er sá að í Bandaríkjunum er viðurkennt að lækka eigi skatta mest á auðmönnum, en hér er reynt að fela það."
Össur Skarphéðinsson gagnrýndi þá þögn sem ríkti um Íraksstríðið, ráðherrarræðið og viðskiptahallannMYND/Valgarður


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×