Erlent

Kerry með meira fylgi hjá Newsweek

John Kerry nartar nú í hælana á keppinaut sínum George Bush samkvæmt nýjum fylgiskönnunum og er jafnvel kominn með meira fylgi samkvæmt einni könnun. Það dregur til tíðinda vestanhafs nú þegar rétt tæplega mánuður er í forsetakosningarnar. Forskot George Bush á John Kerry er hreinlega horfið samkvæmt nýrri fylgiskönnun, bæði hjá Gallup og sameiginlegri könnun CNN og USA Today þar sem frambjóðendurnir mælast með fjörutíu og níu prósenta fylgi. Sé aðeins litið til skráðra kjósenda er Bush þó ennþá með forskot á Kerry, 49 prósent á móti 47 prósentum. Ný könnun sem birtist í fréttatímaritinu Newsweek bendir hins vegar til þess að Kerry hafi nú örlítið forskot á Bush. Kannanir helstu dagblaða vestanhafs benda til þess að áhorfendum hafi fundist John Kerry standa sig betur í kappræðum þeirra Bush á fimmtudag. Stjórnmálaskýrendur benda á að sömu sögu hafi verið að segja af Al Gore árið 2000 þegar hann þótti standa sig mun betur í fyrstu kappræðunum. Gore tapaði þó kosningunum sem kunnugt er. Fréttaskýrendur benda á að nú sé á brattann að sækja hjá Kerry þar sem væntingar almennings hafi breyst. Fyrir kappræðurnar í síðustu viku gerðu flestir ráð fyrir því að Bush yrði betri en nú er því öfugt farið og flestir vænta þess að Kerry standi sig betur í næstu kappræðum. Það skiptir þó mestu máli hvaða áhrif kappræðurnar hafa á óákveðna kjósendur í nokkrum lykilríkjum á borð við Flórída og Ohio því talið er fullvíst að sá frambjóðandi, sem sigrar í kosningunum í nóvember, verði að bera sigur úr bítum í þessum ríkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×