Erlent

Stórsókn hjá John Kerry

Demókratinn og forsetaframbjóðandinn John Kerry er kominn með meira fylgi en keppinautur hans, George W. Bush Bandaríkjaforseti, samkvæmt skoðanakönnun bandaríska tímaritsins Newsweek. Könnunin var gerð eftir sjónvarpskappræður forsetaframbjóðendanna fyrir skömmu en Kerry þótti koma vel út úr þeim. 47 prósent aðspurðra sögðust myndu kjósa Kerry en 45 prósent voru á bandi Bush. Ralph Nader, sem býður sig fram sjálfstætt, hlaut 2 prósenta fylgi. Hvað varðar kappræðurnar sjálfar sögðu 61 prósent að Kerry hefði borið sigur úr býtum en aðeins 19 prósent sögðu að Bush hefði staðið sig betur. 16 prósent sögðu að þeir hefðu staðið sig jafnvel. Aðeins fjórar vikur eru síðan repúblikanar höfðu töluvert forskot á demókrata í könnunum eftir vel heppnað flokksþing í New York. Samkvæmt könnun Newsweek hafði Bush þá 52 prósenta fylgi en Kerry aðeins 41 prósents fylgi. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru 2. nóvember næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×