Erlent

Kemur ef hann kemur

Íbúar Miami á suðurodda Florída kipptu sér vart upp við fellibylinn Jeanne í fyrrinótt og gærmorgun. Hann gekk enda yfir nokkuð norðan við borgina og lét finna fyrir sér í grennd við Fort Pierce og Okeechobee. Guðjón Sverrisson hefur búið í Miami í fjögur ár en hann er fjármálastjóri Strax, sem er fyrirtæki að mestu í eigu íslenskra banka og annarra fjárfesta og fæst við sölu farsíma og aukahluta. "Það var allt með kyrrum kjörum hjá okkur, utan hvað það rigndi nokkuð hressilega hjá okkur í morgun," sagði Guðjón í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann er orðinn vanur aðvörunum um yfirvofandi fellibylji því á síðustu vikum hafa fjórir slíkir stefnt á Florída og valdið mismiklum skaða. "Charlie kom fyrstur, hann kom upp að vesturströnd Flórída og fór þar í gegnum landið. Svo kom Frances austan megin, þá Ivan sem Florída slapp raunar að mestu við og svo Jeanne nú. Fólk hér í Miami er orðið vant þessu og hleypur vart upp til handa og fóta lengur því skaðinn hefur nánast enginn orðið. Það hugsar frekar með sér; hann kemur ef hann kemur." Guðjón sagði þó fjölmarga íbúa Flórídaskaga hafa orðið illa úti í byljum síðustu vikna, það væri greinilegt af sjónvarpsfréttunum en vart væri frá öðru sagt en óveðrinu og tjóninu sem það olli í bæjum og borgum mið- og norðurhlua Skagans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×