Innlent

Stófelldar kerfisbreytingar

Tillögur Reykjavíkurlistans um stórfelldar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar eru nú til óformlegrar umfjöllunar meðal borgarfulltrúa. Þar er meðal annars lögð til sameining menningarmála og íþrótta- og tómstundamála og sameining fræðsluráðs og leikskólaráðs. Þá er lagt til að embætti borgarlögmanns og borgarritara verði lögð niður auk Innkaupastofnunar Reykjavíkur og Aflvaka. Búist er við að endanlegar tillögur um þetta liggi fyrir í næsta mánuði. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og formaður stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar, segir að unnið sé að tillögum um sameiningu fjölmargra nefnda og sviða. "Það er verið að skoða allt stjórnkerfið, þar á meðal ráðhúsið og einstaka skrifstofur og nefndir." Dagur segir að sameining íþróttamála og menningarmála sé þar á meðal. Nefndirnir séu býsna margar og borgarkerfið óþarflega flókið. "Fólk á ekki að þurfa masterspróf í stjórnsýslufræðum til að skilja stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þess vegna viljum við einfalda það og gera kerfið skilvirkara. Það er engum greiði gerður með því að hafa nefndirnar of smáar. Við þannig kringumstæður fer of mikill tími í samráðsfundi nefnda og þeim gefst ekki tækifæri til að einbeita sér að stefnumörkun og framtíðarsýn." Dagur segir að markmiðið sé eingöngu að einfalda hlutina því það sé ekki vitað hvort breytingarnar leiði til sparnaðar fyrir borgina, komi þær til framkvæmdar. Forystumenn innan íþróttahreyfingarinnar sem blaðið náði tali af segjast óánægðir með hugmyndirnar. Verið sé að búa til svo stórar stjórnsýslueiningar að þær kunni að missa sjónar á markmiðum þessara ólíku málaflokka. Þá þótti öðrum sem núverandi fyrirkomulag virkaði vel og því væri lítil ástæða til breytinga. Pólitísk samstaða mun vera um sumar tillögur Reykjavíkurlistans. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks munu þó vera ósáttir við sumt sem þar kemur fram, þar á meðal sameiningu íþróttamála og menningarmála.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×