Erlent

Fimmtíu féllu í tveimur árásum

Um fimmtíu manns létu lífið í Írak í gær. Meirihluti fólksins féll þegar bandarískar herflugvélar gerðu loftárásir á hús í Falluja þar sem yfirstjórn Bandaríkjahers í Írak sagði vígamenn hafast við. Konur og börn voru þó nær helmingur þeirra sem féllu þar. Þá féllu fimm í sprengjutilræði sem var gert í Bagdad. Sautján börn voru í hópi þeirra sem létust í loftárásinni í Falluja og tvær konur meðal þeirra 27 sem særðust að sögn heilbrigðisyfirvalda. Árásin vakti mikla reiði heimamanna, sem fordæmdu Bandaríkin. Bandarísk hermálayfirvöld vörðu hins vegar árásina og vísuðu til upplýsinga sem þau hefðu fengið um að um það bil 60 vígamenn hefðu fallið í árásinni. Bandaríkjaher hefur ekki haft hermenn í Falluja frá því bardögum um borgina lauk fyrir nokkrum mánuðum. Trúarleiðtogar notuðu hátalarakerfi Falluja-moskunnar til að hvetja fólk til að gefa blóð. Vígamenn hafa búið um sig í Falluja síðustu mánuði og notað borgina sem stökkpall til árása á bandarískar hersveitir sem hafa herbúðir í nágrenninu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×