Erlent

Tólf hafa látist í Bandaríkjunum

Tólf manns hafa látið lífið í áhlaupi Ívans grimma á Bandaríkin. Mikið hefur dregið úr styrk fellibylsins sem nú gengur norður eftir Alabama-ríki. Íbúar New Orleans önduðu léttar þegar fellibylurinn sveigði af leið og tók land við bæinn Mobile í Alabama. Til allrar lukku var Ívan orðin heldur máttlítill þegar til kom og í dag hefur svo af honum dregið að hann verður vart til vandræða meir. Ívan er þó með allra verstu fellibyljum sem gengið hafa yfir Karíbahafið og var, þegar verst lét, flokkaður sem fellibylur af fimmtu gráðu sem er það mesta. Tæplega sjötíu manns hafa látið lífið í yfirreið Ívans og eyðileggingin er gríðarleg, mest á eyjunni Grenada. Þar hafa alls 60 þúsund manns misst heimili sín sem er skelfilegt þegar til þess er litið að á eynni búa aðeins hundrað þúsund manns. Og ekki er allt búið enn. Enn einn fellibylur er að sækja í sig veðrið á Karíbahafi, sá tíundi í röðinni þetta árið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×