Innlent

Stólaskipti á ríkisráðsfundi

Ríkisráð Íslands hefur verið boðað til fundar klukkan eitt í dag og lætur Davíð Oddsson þá af embætti forsætisráðherra eftir 13 ára starf. Samkvæmt venju er síðan strax haldinn nýr ríkisráðsfundur þar sem ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar tekur formlega við. Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra í því ráðuneyti. Jafnframt leysir Sigríður Anna Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttur af hólmi í umhverfisráðuneytinu. Davíð Oddsson stjórnaði sínum síðasta ríkisstjórnarfundi í gær og sagðist hann kveðja starfið með söknuði en það yrði þó ekki erfitt verk að afhenda Halldóri Ásgrímssyni stjórnartaumana: "Ég held það verði ekki erfitt fyrir mig, heldur þvert á móti auðvelt að starfa málefnalega sem utanríkisráðherra og formaður stjórnmálaflokks undir forystu nýs forsætisráðherra. Það verður ekkert vandamál. Það er ekki eins og ég sé að afhenda öðrum bú eða jörð sem ég eigi, þótt ég hafi fengið að sitja óvenjulega lengi." Halldór Ásgrímsson sagðist að loknum síðasta ríkisstjórnarfundinum undir stjórn Davíðs að breytingar yrðu, en engin bylting þótt nýr maður tækji við ríkisstjórnarforystu. "Það verður áherslumunur þegar fram líða stundir, en þetta hefur gengið svo vel að ég tel ekki ástæðu til að gera neina byltingu." Hann sagðist vísa því á bug að það myndi reynast erfitt að hafa fyrrverandi forsætisráðherra innanborðs í fagráðuneyti. "Ég hlusta ekki á slíkar kenningar. Davíð situr áfram í ríkisstjórn sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins. Það er mikill styrkur fyrir ríkisstjórnina og mig líka að hafa hann með.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×