Sport

Of mörg mistök hjá landsliðinu

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var vonsvikinn með að ná ekki að knýja fram sigur. "Við vorum fyrst og fremst að færa þeim boltann á silfurfati í fyrri hálfleik. Þeir nýttu sér það vel í hraðaupphlaupunum. Það var fyrst og fremst munurinn," segir Guðmundur. "Við erum fínir í seinni hálfleik og hann vinnum við. Leikurinn hraður og mikið skorað. Varnarleikurinn helst mjög góður og við söxum á þá en missum þá hins vegar strax frá okkur á ný, eftir að hafa unnið upp þrjú mörk. Það var mjög einkennandi fyrir leik okkar að mínu mati." Leikskipulagi liðsins var breytt í takt við mótlætið. "Við vorum í erfiðri stöðu. Guðjón Valur spilaði fyrir utan og þá var Ólafur kominn á miðjuna. Þetta var ákveðin þrautarlending sem gekk ágætlega. En samt er alltaf erfitt að meta hvort það hefði gengið betur frá byrjun. Breiddin er því miður ekki meiri en þetta hjá okkur." Guðmundur var ánægður með baráttu sinna manna þrátt fyrir tapið. "Ég get ekki kvartað neitt yfir henni, því strákarnir voru til fyrirmyndar hvað hana snertir. Aðalmunurinn á liðunum voru mistökin sem við gerðum okkur seka um þar sem þeir refsuðu okkur í hvert sinn." Leikmenn landsliðsins eru staðráðnir í að ljúka Ólympíuleikunum með reisn og ná níunda sætinu. "Þetta eru vissulega vonbrigði fyrir okkur öll en við leggjum ekki árar í bát og stefnum á níunda sætið," sagði Guðmundur að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×