Erlent

Najaf hertekin

Bandarískar og írakskar hersveitir hafa hertekið miðborg Najaf í stórfelldri árás þar sem beitt hefur verið bæði þyrlum og skriðdrekum. Skilaboð árásarsveitanna til uppreisnarmannanna eru einföld: farið eða þið deyið. Najaf er eitt af höfðvígjum sjíta-klerksins Moqtadas al-Sadrs sem hefur espað til uppreisnar og blóðbaðs undanfarna mánuði. Svo virðist sem Bandaríkjamenn og írakskir stjórnarhermenn ætli nú að ganga milli bols og höfðs á skæruliðahreyfingu hans í eitt skipti fyrir öll. Hundruð manna hafa fallið í liði klerksins undanfarna daga enda eru flestir liðsmennirnir ungir að árum og hafa ekkert að gera í hendurnar á vel þjálfuðum bandarískum landgönguliðum. Það er hinsvegar enginn skortur á nýjum sjálfboðaliðum til þess að taka upp vopn fyrir þá sem falla. Al-Sadr hefur hvatt menn sína til þess að berjast til síðasta blóðdropa en sjálfur er hann í felum í hinum og þessum helgistöðum í borginni. Bandarískir skriðdrekar hafa nú lokað aðkomuleiðum að nokkrum helgistöðum í miðborginni. Írakskir hermenn fara um borgina á brynvörðum vögnum með öflugum hátölurum. Þeir kalla til borgarbúa að þeir ætli að svæla uppreisnarmennina út og hvetja almenning til að halda sig fjarri. Miklar mótmælagöngur hafa hinsvegar verið farnar í nokkrum borgum í Írak til þess að mótmæla árásinni á Najaf og lýsa stuðningi við Moqtada al-Sadr.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×