Erlent

900 Bandaríkjamenn hafa fallið

Rúmlega níu hundruð bandarískir hermenn hafa látið lífið í Írak en flestir þeirra, eða rúmlega átta hundruð, létust eftir að George Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að stríðinu í Írak væri lokið í maí á síðasta ári. Af níu hundruð hafa yfir tvö hundruð látist af slysförum. Bretar eru með mun fámennara herlið í Írak og halda mest megnis til í borginni Basra í Suður-Írak. Þeir hafa misst sextíu og einn mann. Flestir þeirra eða þrjátíu og átta létust af slysförum eða fyrir mistök í árásum samherja sinna. Hátt í tuttugu þúsund Írakar hafa fallið í átökum frá því stríðið hófst árið 2003. Þar af eru sex þúsund óbreyttir borgarar. Fimmtíu og níu hermenn frá öðrum þjóðum hafa dáið í Írak og enn vekur athygli að lang flestir þeirra féllu eftir maí á síðasta ári eða eftir að stríðið var unnið. Nokkrir bandarískir hermenn létust í síðustu viku og einn Breti féll í gær í árásum vígamanna í borginni Basra. Ekkert lát er á árásum uppreisnarmanna og fylgismanna Moqtada al-Sadrs sjítaklerks. Átök hafa nú staðið yfir í sex daga samfleytt í borginni Najaf.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×