Erlent

Áströlum og Írökum hótað

Ástralíu og Ítalíu hafa borist hótanir um hryðjuverk frá samtökum, sem talin eru tengjast Al-Kaída, flytji löndin ekki heri sína heim frá Írak. Utanríkisráðherra Ástralíu segist taka hótunina alvarlega en ekki komi til greina að láta undan kröfum hryðjuverkamanna.  Í tilkynningu frá samtökunum, sem kalla sig „Sameinað Íslam“, er löndunum tveimur hótað holskeflu af bílsprengingum dragi þau ekki herlið sín til baka frá Írak. Farið er fram á að 2700 hermenn Ítala og tæplega eitt þúsund hermenn Ástrala haldi heim á leið frá Írak. Að öðrum kosti komi til blóðbaðs í löndunum tveimur. Lífi borgara landanna verði breytt í hreinasta helvíti ef ekki verði farið að fordæmi Spánverja og Filippseyinga. Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu, sagði í dag að litið væri alvarlegum augum á hótunina en jafnframt væri það alveg skýrt að ekki kæmi til greina að hlýða kröfum hryðjuverkamanna. Það léki enginn vafi á því að ákvörðun Spánverja um að kalla herlið sitt heim frá Írak eftir sprengingarnar í Madríd, og brotthvarf filippseyska hersins eftir mannrán og líflátshótun á hendur Filippseyingi, hefði styrkt stöðu hryðjuverkamanna. Downer segir hins vegar engan sigrast á hryðjuverkamönnum með því að verða við kröfum þeirra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×