Menning

Skriflegar uppsagnir á tryggingum

Fólk á það til að villast í tryggingafrumskóginum og átta sig jafnvel ekki á hvernig hlutirnir virka. Til að hafa allt á hreinu er best að vita hvaða tryggingar eru lögbundnar og hverjar ekki. Þær tryggingar sem eru lögbundnar eru til að mynda brunatrygging húseignar og almenn bílatrygging. Við kaup og sölu á eignum skráir fasteignasalinn hvar eigandinn vill að eignin sé brunatryggð og svo eru upplýsingarnar sendar viðkomandi tryggingafélagi. Sömu sögu er að segja með bílatryggingar þar sem eigendaskiptin fara í gegnum bifreiðastofu og þá skal ætíð tekið fram hvar eigi að tryggja bílinn. Upplýsingar varðandi eignaskipti eiga að berast tryggingafélögunum og þannig á þetta að gerast nánast sjálfkrafa. Hins vegar skal hafa það fyrir reglu að hringja alltaf í tryggingafélagið til að sjá til þess að allt sé frágengið. Ólögbundnar tryggingar, eins og húseigendatryggingar, þarf fólk að sjá um að tilkynna til tryggingafélagsins ef einhverjar breytingar verða á eignarhaldi húsnæðis. Hvað heimilistryggingu varðar fylgir hún innbúinu en ekki húsnæðinu og þarf ekki að tilkynna um neitt annað en breytt heimilisfang fyrir reikninginn. Ef til stendur að skipta um tryggingafélag skal hafa í huga að tryggingar gilda í ár í senn og endurnýjast sjálfkrafa að ári liðnu. Til þess að segja upp tryggingum þarf að senda skriflega beiðni eigi síðar en mánuði áður en tryggingin endurnýjast. Við eignaskipti fellur tryggingin hins vegar úr gildi við afhendingardag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×