Innlent

Hafnar hugmyndum um 75% þátttöku

Starfshópur ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu telur heimilt að setja skilyrði um hana en að þau verði að vera hófleg. Nefndin hafnar hugmyndum um 75% þátttöku og að 2/3 hluta þurfi til að nema fjölmiðlalögin úr gildi. Ríkisstjórnin skipaði fyrr í mánuðinum starfshóp fjögurra hæstaréttarlögmanna til að undirbúa lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar þess að forseti Íslands neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin svokölluðu. Nefndin hefur skilað af sér skýrslu og kynnti hana opinberlega í dag. Meðal þess sem skoðað var var hvort að heimilt væri að setja einhver skilyrði í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Niðurstaðan var sú að það væri heimilt en því hóflegri sem þau skilyrði væru, því betra og líklegra væri að þau stæðust. Nefndin hafnar hugmyndum sem nefndar hafa verið um að 75% kosningaþátttöku þurfi og aukinn meirihluta, þ.e. 2/3, til að fella lögin. Starfshópurinn telur að lagasetning sé nauðsynleg en að þau lög þurfi að vera almenn en ekki sértæk fyrir þetta mál. Þá telur hann að atkvæðagreiðsla fari fram eigi síðar en tveimur mánuðum eftir synjun staðfestingar laga og ekki seinna en þremur vikum eftir að lög um þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi. Allir sem hafi kosningarétt í þingkosningum hafi kosningarétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og að dómsmálaráðuneytið dreifi upplýsingariti með lögunum inn á hvert heimili í landinu. Þá vill starfshópurinn að kjörseðillinn verði einfaldur og skýr og einfaldlega verði spurt þannig að svarið sé annað hvort „já, fjölmiðlalögin eiga að halda gildi sínu“, eða „nei, fjölmiðlalögin eiga að falla úr gildi“. Þá leggur starfshópurinn til að t.d.verði miðað við 50% kosningaþátttöku eða að 25-44% atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lögin úr gildi. Karl Axelsson, formaður starfshópsins, segir málið lögfræðilega flókið enda engin fordæmi sem auðvelt sé að vísa í sem og umdeilt meðal lögfræðinga. Hvað varðar tæknilega framkvæmd kosninganna segir hann það tiltölulega einfalt. Hægt er að lesa skýrsluna í heild á slóðinni http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/Skyrsla_thjodaratkvaedi_DOC.doc


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×