Erlent

Chirac húðskammaði Bush

Frakkar halda fast við að Atlantshafsbandalagið hafi engu formlegu hlutverki að gegna í Írak. Jacques Chirac, forseti Frakklands, húðskammaði auk þess George Bush, forseta Bandaríkjanna, fyrir afskiptasemi af málefnum Evrópu á leiðtogafundi bandalagsins í Tyrklandi. Frakkar féllust á það með semingi á leiðtogafundi NATO í dag að taka þátt í að þjálfa írakska herinn. Það vilja þeir þó alls ekki gera í Írak því þangað ætla þeir ekki að senda einn einasta hermenn. Þeir ljá þó máls á því að þjálfun fari fram í Frakklandi, eða jafnvel einhverju þriðja landi. Þá standa Frakkar á því fastar en fótunum að NATO sem bandalag hafi ekkert að gera í Írak og eigi ekki taka þar að sér nein verkefni. Þótt enginn annar leiðtogi hafi talað jafn skýrt og Chirac er ljóst að hann talar fyrir munn margra annarra. Menn voru brosmildir og kumpánlegir á þessum leiðtogafundi en ljóst er að ekki er gróið um heilt eftir þá sundrung sem varð við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Frakkar nota líka hvert tækifæri til þess að senda Bandaríkjamönnum tóninn. Þannig brást Chirac reiður við þegar hann frétti að Bush hefði hvatt Evrópusambandið til þess að ákveða dagsetningu fyrir aðildarviðræður Tyrklands að sambandinu. Chirac sagði að Bush ætti ekki að vera að skipta sér af hlutum sem honum kæmu ekki við. Að hann skyldi segja þetta væri eins og Frakkar færu að segja Bandaríkjamönnum hvernig þeir ættu að haga samskiptum sínum við Mexíkó.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×