Innlent

Andstaðan segir sína skoðun

Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn með traustum meirihluta, þrátt fyrir árásir Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Þetta er mat nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar segir forsetann hafa traust umboð eftir kosningarnar, og kveðst ekki hafa búist við svo góðri kosningu.Hann segir þetta ákaflega góða niðurstöðu miðað við þá gerningahríð sem mögnuð hafi verið gegn honum að undanförnu. Össur sagðist hafa átt von á að Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Morgunblaðinu myndu ná meiri árangri en þeir gerðu við að fá fólk til að skila auðu. Þessi úrslit gefi forsetanum nokkuð traust umboð og ætti að sýna þeim sem hafa verið að vinna gegn honum að tími sé til kominn að draga sig til hlés og vinna sameiginlega að því að skapa frið í kringum forsetaembættið. En hvernig má skýra dræma kosningaþátttöku og auða seðla? Ögmundur Jónasson, Vinstri-grænum segir að ekkert sé hægt að alhæfa í þeim efnum. Það sé hins vegar rétt að kjarni Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið hafi reynt að gera þessar kosningar flokkspólitískar. Það þótti Ögmundi ósmekklegt af þeirra hálfu. Hann telur að stuðningur við Ólaf Ragnar Grímsson sé þverpólitískur og þannig vilji þjóðin hafa það. Guðjón A. Kristinsson, formaður Frjálslynda flokksins, telur Ólaf geta vel við unað. Þjóðin geti treyst honum en Guðjón er ekki á því að hluti þjóðarinnar sé að lýsa vantrausti á Ólaf. Hann telur að megnið af hinum auðu seðlum hafi komið frá kjarna ríkisstjórnarflokkanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×