Innlent

Mesta kjörsókn á Akureyri

Kjörsókn fer hægt af stað í dag þegar Íslendingar kjósa sér forseta. Í Reykjavíkurkjördæmunum voru tæplega 19 prósent atkvæðisbærra manna búnir að kjósa klukkan tvö en í síðustu forsetakosningum fyrir átta árum höfðu rúmlega fjórðungur kjósenda greitt atkvæði. Í suðvesturkjördæmi hafa ekki verið teknar saman tölur um kjörsókn í kjördæminum öllu en taka má dæmi af Hafnarfirði. Þar var kjörsókn 11,7 prósent klukkan tvö en í síðustu Alþingiskosningum fyrir ári höfðu á milli 22 prósent greitt atkvæði klukkan eitt í Hafnarfirði. Í Norðvesturkjördæmi munu nýjar tölur um kjörsókn liggja fyrir eftir um það bil klukkustund en þar höfðu 4,5 prósent kosið á hádegi. Í þessu kjördæmi eru menn lítið fyrir samanburð við fyrri ár. Áhugasömustu kjósendurnir þetta árið virðast búa á Akureyri en þar er kjörsókn ívið betri en í síðustu alþingiskosningum - það sem af er degi í það minnsta. Klukkan tvö höfðu tæplega 24 prósent greitt atkvæði í forsetakosningunum, en 22 prósent í sameiningarkosningunum. Akureyringum gefst nefnilega í dag kostur á að segja sitt álit á sameiningu við Hríseyjarhrepp. Í Alþingiskosningunum í fyrra höfðu á sama tíma tæplega 23 prósent Akureyringa með kosningarétt greitt atkvæði. Ekki hefur verið hægt að nálgast upplýsingar um kjörsókn í Norðausturkjördæmi í heild. Í suðurkjördæmi hafa ekki verið teknar saman nýjar tölur frá því á hádegi. Þá var kjörsókn mun minni en í alþingiskosningunum í fyrra. Á Selfossi var kjörsókn 14,5 prósent, á Reykjanesi 6,6 prósent, í Vestmannaeyjum fimm prósent en í smærri kjördeildum er talið að kjörsókn hafi verið skárri. Flestar kjördeildir verða opnar til klukkan tíu í kvöld en fámennustu deildirnar verða lokaðar eitthvað fyrr. Búist er við fyrstu tölum uppúr klukkan tíu en víðast hefst talning um sjö.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×