Innlent

Fimmtungur ætlar að skila auðu

Fimmtungur kjósenda ætlar að skila auðu í forsetakosningunum næstkomandi laugardag samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag. Níu af hverjum tíu þeirra sem taka afstöðu ætla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson. Ungar sjálfstæðiskonur hvetja kjósendur til að skila auðu. Kosningarnar á laugardag verða sjöttu forsetakosningarnar í sögu lýðveldisins. Samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir í morgun ætlar um það bil fjórðungur kjósenda að skila auðu á kjörstað eða sitja heima. 19,4% ætla að skila auðu. 5,5% ætla ekki að kjósa. Ólafur Ragnar Grímsson nýtur yfirgnæfandi stuðnings þeirra sem taka afstöðu en níu af hverjum tíu þeirra ætla að kjósa hann. Tæplega 8% þeirra sem taka afstöðu ætla að kjósa Baldur Ágústsson og um 2% Ástþór Magnússon. Sé litið til allra kjósenda nýtur Ólafur Ragnar stuðnings um 60% þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn virðast vera í meirihluta þeirra sem ætla að skila auðu og hvetja hvern annan til þess, þótt engum skipulegum áróðri fyrir því sé haldið úti af flokknum. Á vefritinu tíkinni, sem ungar sjálfstæðiskonur halda úti, eru kjósendur hvattir til að skila auðu í kosningunum á laugardag. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segist ekki þekkja nein fordæmi þess í íslenskri stjórnmálasögu að menn hafi hvatt fólk til þess að sitja heima eða skila auðu. Hann segir jafnframt að eðlilegasta leið þeirra, sem séu ekki sáttir við neinn frambjóðanda, sé að skila auðu í kosningum. Það sé hins vegar athyglisvert að stjórnarskráin geri ekki ráð fyrir að frambjóðendur þurfi að hafa tilskilinn hóp kjósenda á bak við sig. Gunnar Helgi segir þennan rétt sé því fyrst og fremst yfirlýsingu en geti ekki haft áhrif á formlega niðurstöðu kosninga. Ákveðinn hópur kjósenda sé að nýta sér þann rétt að láta í ljósi óánægju sína á þeim tíma sem þeir hafa ekki möguleika á, eða vilja ekki, bjóða fram.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×