Innlent

Ástþór óánægður með Ólaf Ragnar

Baráttan fyrir komandi forsetakosningar fékk annan og þyngri undirtón þegar forsetaframbjóðendurnir sátu í fyrsta sinn allir saman fyrir svörum í Ríkisútvarpinu í dag. Þeir voru þó ekki í viðtali allir í einu, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, heldur fóru inn hver á eftir öðrum. Ekki voru allir frambjóðendurnir sáttir við að hafa þann háttinn á. Ástþór Magnússon spurði Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands, á göngum Ríkisútvarpshússins, hvenær hann ætli að hitta sig í kappræðum. Forsetinn sagði það verða í næstu viku, á tveimur fundum sem búið væri að samþykkja, og byrjaði að ganga í burtu frá Ástþóri sem spurði þá hvers vegna hann hlypi í burtu. Ólafur Ragnar sagðist ekki vera að því og innti Ástþór hann þá eftir því, hvers vegna hann hafi læðst bakdyramegin út af skrifstofu sinni á dögunum til að forðast að hitta sig. Forsetinn sagði það rangt og gekk á brott. Ástþór sagði þá við viðstadda að Ólafur Ragnar væri furðulegasti forseti sem hann hafi kynnst á ævinni.      Baldur Ágústsson, þriðji forsetaframbjóðandinn, segir kosningabaráttu sína alls ekki vonlausa þrátt fyrir að sumar kannanir bendi til þess. Honum sé alls staðar tekið vel og kannanirnar, sem birst hafi, séu svo mismunandi og að fylgi hans mælist jafnvel 40% í sumum þeirra. Aðspurður hvort Baldur álíti ákvörðun núverandi forseta, að undirrita ekki fjölmiðlalögin, koma sér til góðs eða ills, segir hann ákvörðunina líklega ekki hafa nein áhrif hvað það varðar. Sjálfur segist hann ætla að undirrita lögin, verði hann kosinn.     Ástþór Magnússon segir forsetakosningarnar með sovésku sniði og að fólk ætti að spyrja sig hvers vegna engir umræðuþættir séu á Stöð 2 fyrir kosningarnar. Hann segir ekkert óeðlilegt að niðurstöður kannana, þar sem fylgi hans mælist mjög lítið, séu „með sovésku sniði við svona aðstæður.“       


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×