Innlent

Forseti neitar stríði við Alþingi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafnar því alfarið að með því að neita að skrifa undir fjölmiðlalögin hafi hann farið í stríð við Alþingi. Stjórnarskráin hefjist á því að segja að forsetinn og þingið fari saman með löggjafarvaldið. Ólafur Ragnar segir í samtali við DV að það hafi aldrei hvarflað að honum að segja að þingið væri í stríði við forsetann. Í sama viðtali segir hann að hann hafi ákveðið að láta ekki aðra handhafa forsetavalds afgreiða málið. Því hafi hann flýtt sér heim frá útlöndum og ekki farið í brúðkaup Danaprins. Ég gat ekki gert það, segir Ólafur Ragnar, í trausti þess að stjórnarandstaðan myndi halda uppi málþófi. Aukinn þungi er að færast í kosningabaráttu Ólafs Ragnars Grímssonar en forsetakosningarnar eru eftir viku. Bæði DV og Fréttablaðið birta stór viðtöl við hann í dag og eftir hádegi tekur hann þátt í kappræðum við mótframbjóðendur sína tvo, Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson, í Ríkisútvarpinu. Í Fréttablaðinu segir hann til dæmis að hver sá sem gegnir embætti forseta verði að vera reiðubúinn að axla ábygð þótt það kunni að skerða vinsældir hans. Skoðanalaus forseti myndi fljótlega einangrast. Eftir hádegi verður Ólafur Ragnar í þætti á Ríkisútvarpinu þar sem hver frambjóðendanna þriggja fá tækifæri til að kynna sig, hver fyrir sig en þó ekki í kappræðum, eins og til stóð í upphafi. Ástþór Magnússon hefur ítrekað skorað á Ólaf Ragnar í kappræður en hann hefur ekki fengið nein svör. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur ítrekað óskað eftir viðtali við Ólaf Ragnar Grímsson á undanförnum dögum en ekki fengið jákvæð svör. Forsetinn situr hins vegar fyrir svörum í þættinum Íslandi í dag á mánudaginn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×