Innlent

Forsetinn er ekki bara puntudúkka

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að með því að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar sé hann ekki að gera forsetaembættið pólitískara en áður. "Saga forsetaembættisins sýnir að atburðarásin getur orðið á þann hátt að forsetinn verður að taka ákvarðanir sem falla ekki öllum í geð. Það er ekki þar með sagt að embættið verði pólitískara eða flokkspólitískara," segir Ólafur Ragnar. "Menn mega ekki gleyma því að forsetaembættið er hluti af stjórnskipun landsins og hver sá sem gegnir embætti forsetans verður að vera reiðubúinn að axla ábyrgð þótt það kunni að skerða vinsældir hans. Ef forsetinn er ekki reiðubúinn til þess er hann ekki starfinu vaxinn. Forsetinn er ekki bara puntudúkka." Ólafur Ragnar segir að forsetinn verði að hafa skoðanir og geti ekki látið þrýsting eða gagnrýni frá einstökum forystumönnum stjórnmálaflokka í landinu hafa áhrif á gerðir sínar. Aðspurður hvers vegna hann hafi beitt málskotsréttinum í fjölmiðlamálinu en ekki Kárahnjúka- eða öryrkjamálinu segir hann: "Það er ekki hægt að stunda samanburðarfræði frá einu máli til annars. Þau eru öll ólík og aðstæður með svo mismunandi hætti að forsetinn getur ekki borið þau saman við önnur mál í hans tíð eða þau mál sem voru á dagskrá fyrirrennara hans." Ólafur Ragnar segir samskipti sín við ríkisstjórnina í stórum dráttum hafa verið farsæl. "Við forsætisráðherra höfum átt marga árangursríka og góða fundi hér á Bessastöðum þar sem sitthvað hefur verið rætt og mál verið gaumgæfð. Umræður okkar hafa verið fullkomlega eðlilegar og málefnalegar."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×