Innlent

Forseti fagnar ummælum Vigdísar

Ólafur Ragnar Grímsson forseti segist í viðtali við DV fagna því að Vigdís Finnbogadóttir, forveri sinn í forsetaembætti, skuli telja málskotsréttinn svo vakandi og sterkan að hún lýsi því nú yfir að hún hefði beitt honum í Kárahnjúkamálinu. Vigdís Finnbogadóttir hefur sagst ekki skilja í forseta Íslands að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Nær hefði verið að gefa þjóðinni tækifæri til að greiða atkvæði um Kárahnjúkavirkjun. Í viðtalinu við DV segir Ólafur Ragnar Gímsson þessa yfirlýsingu Vigdísar mikilvægt innlegg í umræðuna um málskotsrétt og fagnar því að hún skuli túlka réttinn svona skýrt. Í viðtalinu greinir Ólafur frá því að hann hafi ekki ráðfært sig við neinn þegar hann ákvað að nýta málskotsrétt forseta. Hann segir að á frumstigum málsins hafi hann tekið þá ákvörðun að láta handhafa forsetavalds ekki afgreiða þetta mál. Þess vegna hafi hann komið heim frá Mexíkó og ekki farið í brúðkaup krónprins Danmörku. Aðspurður hvort hann treysti ekki handhöfunum segist forsetinn hafa dregið sínar ályktanir af því sem lýst var yfir eftir heimastjórnarafmælið; að um leið og forsetinn væri farinn úr landi þá þyrfti ekki að tala við hann. Misskilningur sé að hann sé ekki lengur forseti þegar hann fer til útlanda í opinberum erindagjörðum og Halldór Blöndal og einhverjir tveir aðrir taki þá við. Hann fari á fund erlendra þjóðhöfðingja sem forseti Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki séð sér fært um að veita fréttastofu Stöðvar 2 viðtal í vikunni þrátt fyrir ítrekaða eftirleitan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×