Menning

Gengur í augun á stelpunum

Blæjubílar eru æ algengari sjón á götum borgarinnar. Hörður Már Harðarson bílasali er eigandi blæjubíls af gerðinni Camaro SS Xenon árgerð 2001. Bílinn keypti hann í fyrrasumar og fékk hann á góðu verði. "Ég er bílasali hjá fyrirtæki sem heitir Bílar og List og við notum bílinn sem auglýsingu fyrirtækisins og einnig bara til að njóta á góðum degi," segir Hörður Már. Hann telur ómissandi að setja blæjuna niður á góðviðrisdögum og vill ekki meina að honum verði neitt kalt þó að hann keyri þannig um göturnar. "Svona bílar eru miklu vandaðri í dag en þeir voru hér áður fyrr. Á sólskinsdegi um hávetur er ekkert mál að hafa blæjuna niðri, þá setur maður bara miðstöðina í gang og líður ljómandi vel í bílnum," segir hann. Hörður Már segist fá mikla athygli út á bílinn og þá sérstaklega frá kvenþjóðinni. "Stelpurnar eru veikar fyrir bílnum og hef ég að sjálfsögðu bara gaman af því," segir hann. Haraldur Hannesson sölumaður hjá Ræsi hf. telur töluverða aukningu hafa orðið á innflutningi nýrra og notaðra sportbíla og þar á meðal blæjubíla. "Eftir að snjór fór að minnka á Íslandi fóru þeir sem voru mikið á vélsleðum að snúa sér frekar að mótorhjólum og sportbílum. Þetta er meðal annars ástæða þess að eftirspurn eftir báðum farartækjum hefur aukist á undanförnum árum," segir Hörður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×