Sport

Fyrrum NFL-stjarna vill komast til Ríó sem þrístökkvari | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Wilson.
David Wilson. Vísir/Getty

David Wilson, fyrrum leikmaður New York Giants í NFL-deildinni, hefur sett sér það markmið að komast í keppnislið Bandaríkjanna í þrístökki fyrir Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári.

Wilson var aðeins 23 ára þegar hann neyddist til að hætta í NFL-deildinni vegna alvarlegra meiðsla á háls og hrygg. Hann hlaut meiðslin í leik gegn Philadelphia Eagles snemma á sínu öðru tímabili í deildinni, haustið 2013.

Fylgst er með Wilson í heimildamynd sem má sjá hér en þar segir hann að frjálsíþróttir hafi ávallt verið í miklum metum hjá sér og hann dreymir nú um að verða einn besti þrístökkvari Bandaríkjanna og keppa fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikum.

Úrtökumótið fyrir Ólympíuleikana fer fram í Bandaríkjunum næsta sumar, um mánuði fyrir leikana í Ríó sem hefjast í byrjun ágúst. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi fer Wilson vel af stað en ljóst er að hann þarf þó að bæta sig mikið til að eiga möguleika á að komast alla leið til Brasilíu.

Goodwin stekkur á leikunum í Lundúnum.Vísir/Getty

Hann er ekki eini NFL-leikmaðurinn sem hefur einnig látið til sín taka í frjálsíþróttum en Marquise Goodwin, útherji hjá Buffalo Bills, keppti fyrir Bandaríkin í langstökki á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.

Goodwin endaði í tíunda sæti í greininni en hann setti frjálsíþróttirnar til hliðar þegar NFL-ferillinn hófst árið 2013. Hann reyndi fyrir sér aftur í langstökki síðastliðið sumar og freistaði þess að komast í lið Bandaríkjanna fyrir HM en það tókst ekki. Hann vann engu síður til silfurverðlauna á Ameríkuleikunum stuttu síðar þegar hann stökk 8,27 m.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×