Innlent

Fullgilding bíður breytinga á lögum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kröfuganga í Líbanon. Kona heldur á lofti kröfuspjaldi í göngu í Beirút í aprílbyrjun þar sem líbönsk stjórnvöld voru hvött til að skrifa undir lög sem tækju á heimilisofbeldi.
Kröfuganga í Líbanon. Kona heldur á lofti kröfuspjaldi í göngu í Beirút í aprílbyrjun þar sem líbönsk stjórnvöld voru hvött til að skrifa undir lög sem tækju á heimilisofbeldi. Nordicphotos/AFP
Ísland var á meðal fyrstu 13 aðildarríkja Evrópuráðsins til að undirrita samning um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi.

Skrifað var undir samninginn í Istanbúl í Tyrklandi 11. maí 2011. Samningurinn tók í gær gildi í 11 löndum. Ísland er þó ekki í þeim hópi.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er fullgilding alþjóðasamninga tímafrek og kallar á skoðun á íslenskri löggjöf af hálfu viðkomandi fagráðuneytis og í mörgum tilvikum á lagabreytingar.

Í tilviki Istanbúl-alþjóðasamningsins er það fagráðuneyti innanríkisráðuneytið.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru kvaðirnar sem samningurinn leggur á ríki svo viðamiklar að kallar á breytingar á lögum hér. Unnið hefur verið að frumvarpi um breytingar í innanríkisráðuneytinu, án þess þó að það hafi enn litið dagsins ljós.

Ríki sem fullgilda samninginn skuldbinda sig meðal annars til að þjálfa sérfræðinga í nánum samskiptum við fórnarlömb; standa reglulega að kynningarherferðum til vitundarvakningar um ofbeldið og skaðsemi þess; taka markviss skref til aukins kynjajafnréttis og framleiða kennsluefni um ofbeldislausa úrlausn vandamála í nánum samböndum; koma á fót meðferðarúrræðum fyrir gerendur í heimilisofbeldi og fyrir kynferðisofbeldismenn; starfa náið með sjálfstæðum félagasamtökum; og vinna með fjölmiðlum og einkageiranum í að útrýma staðalímyndum og ýta undir gagnkvæma virðingu fólks í samskiptum.

Þegar samningurinn var undirritaður hjá Evrópuráðinu kom fram að hann væri fyrsti bindandi alþjóðasamningurinn sem tæki heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.

Ísland meðal 13 fyrstu landa

Auk Íslands undirrituðu Istanbúl-samninginn í maí 2011 löndin Austurríki, Finnland, Frakkland, Grikkland, Lúxemborg, Portúgal, Slóvakía, Spánn, Svartfjallaland, Svíþjóð, Tyrkland og Þýskaland.

Síðan þá hafa 23 lönd til viðbótar skrifað undir og eru þau því 36 í allt.

Fjórtán lönd hafa svo staðfest samninginn og fékk hann lagagildi í ellefu þeirra í gær, en það eru Albanía, Andorra, Austurríki, Bosnía og Hersegóvína, Danmörk, Ítalía, Portúgal, Serbía, Spánn, Svartfjallaland og Tyrkland.

Fyrsta nóvember næstkomandi tekur samningurinn svo einnig gildi í Frakklandi, Svíþjóð og á Möltu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×