Skoðun

Frumvarp um endurskoðun almannatryggingalöggjafar til umsagnar

Eygló Harðardóttir skrifar
Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar hafa verið birt á vef velferðarráðuneytisins til umsagnar. Þetta eru tímamót, því frumvarpsdrögin eru mikilvægur liður í heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar sem unnið hefur verið að frá 2005. Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem ég skipaði haustið 2013 undir forystu þingmannanna Péturs Blöndals heitins og Þorsteins Sæmundssonar.

Með frumvarpinu eru boðaðar mikilvægar breytingar. Byggt er á þeirri stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar, hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið, ásamt því að auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Lagt er til að sveigjanleiki starfsloka verði aukinn og skapaður hvati fyrir fólk til að lengja starfsævina eftir vilja og getu hvers sem og að lífeyristökualdur verði hækkaður í skrefum um þrjú ár á næstu tuttugu og fjórum árum.

Einföldun bótakerfisins felst m.a. í tillögu um að sameina þrjá bótaflokka, þ.e. grunnlífeyri, tekjutryggingu og sérstaka framfærsluuppbót, í einn flokk og afnámi frítekjumarka.

Aukinn sveigjanleiki við starfslok felur í sér tillögu um heimild fólks til að fresta lífeyristöku allt til áttræðs og möguleika á að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum til 65 ára aldurs. Miðað er við að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað, en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt.

Til lengri tíma er stefnt að því að lífeyrisþegum verði gert kleift að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði en fresta töku hins helmingsins sem hækkar þá í samræmi við reglur sjóðsins. Samhliða geti fólk tekið hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum. Kostnaður við breytingarnar er áætlaður 5,3 milljarðar króna fyrsta árið. Ég hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins sem er aðgengilegt á vefnum www.vel.is og koma á framfæri athugasemdum, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×