Skoðun

Frumhlaup verðandi landlæknis

Reynir Arngrímsson skrifar
Verðandi landlæknir hljóp á sig í sinni fyrstu opinberu yfirlýsingu. Áður en hann er tekinn við embætti. Það er ekki góðs viti. Ber merki um fljótfærni og skort á fagmennsku. Apar upp fullyrðingar um 50% launakröfur lækna, sem samningamenn læknafélaganna höfðu borið til baka. Setti sig ekki inn í málið áður en hann tjáði sig. Þjóðin á öðru að venjast frá þeim sem hafa setið í embættinu. Hellti sér í pólitískan hráskinnaleik sitjandi á erlendri grundu. Skyldi þetta vera hin nýja lína stjórnvalda? Að heilbrigðisstéttir skuli leita samþykkis landlæknis áður en þær fara fram með kröfur á hendur ríkinu í kjarabaráttu sinni? Munu sjúkraliðar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar sætta sig við slíkt? Maðurinn virðist að þessu leyti ekki skilja hlutverk embættisins sem hann er að taka við.

Nú er erfitt að fá lækna til að koma til starfa á Íslandi vegna launakjara og læknaskortur þegar orðinn vandamál á nokkrum sviðum. Það virðist líka gilda um landlæknisembættið. Við tekur læknir sem er hættur að vinna í Svíþjóð vegna aldurs. Kannski verður það viðmiðið í framtíðinni. Að íslenskir læknar fáist til að koma til starfa á Íslandi þegar þeir verða 67 ára. Hafa eftirlaunastuðning erlendis frá. Er virkilega svona komið fyrir íslensku heilbrigðiskerfi?

Á móti straumnum

Verðandi landlæknir syndir á móti straumnum. Flyst heim þegar straumurinn er út. Við vildum að yngri læknar fylgdu fordæmi hans. Hann á e.t.v eftir að átta sig á því hvers vegna svo er ekki. En út á það gengur barátta lækna fyrir leiðréttingu á grunnlaunum sínum til samræmis við almenna launaþróun í landinu og sérstaklega aðrar heilbrigðistéttir. Verðandi landlæknir getur líklega upplýst stjórnvöld um hvaða laun bjóðast íslenskum læknum sem vilja starfa í Skandinavíu fyrst hann er í þessum ham.

Unglæknum með lækningaleyfi sem fara til framhaldsnáms í Svíþjóð bjóðast a.m.k. 38 þúsund sænskar krónur í dagvinnulaun á fyrsta ári. Það gera um 620 þúsund íslenskar krónur á mánuði á fyrsta ári í framhaldsnámi miðað við gengi í dag. Á Íslandi geta 55 ára og eldri sérfræðilæknar með áralanga starfsreynslu og þjálfun vænst þess að fá slík grunnlaun skv. kjarasamningi Læknafélags Íslands, ef þeir halda áfram að taka vaktir fram í rauðan dauðann á við sér yngri menn. Afsala sér réttindum til vaktahvíldar.

Byrjunarlaun sérfræðinga á Íslandi eru 530 þúsund eða um 100 þúsund krónum lægri en þegar framhaldsnám hefst erlendis. Í Svíþjóð voru meðallaun sérfræðilækna á sjúkrahúsum árið 2012 um 1.100 þúsund á mánuði fyrir dagvinnu. Svo bætast vaktagreiðslur ofan á fyrir nætur- og helgarvaktir. Svipað er að segja frá Noregi þar sem kjör eru heldur betri. Fín frí þar að auki í boði. Eflaust gildir sama um flestar aðrar starfstéttir. Að þær hefðu það betra í erlendu starfsumhverfi.

Raunverulegt umboð

Hins vegar búa læknar við það að þeir hafa þegar flutt utan til framhaldsnáms og sjá hvaða kjör útlærðum sérfræðingum bjóðast þar. Þeir vilja ekki koma heim. Það er staðreynd sem verður ekki horft fram hjá. Það er vandamálið sem þarf að finna lausn á, ef veita á viðunandi læknisþjónustu í landinu. Það gerist ekki með óbreyttu ástandi og þriggja prósenta launahækkun. Þar þarf að lyfta grettistaki. Er eitthvað annað til ráða fyrir utan að fá ellilífeyrisþega sænska ríkisins í stöðurnar til skamms tíma í senn? Lögmálið um framboð og eftirspurn virðist vefjast fyrir talsmönnum frelsis í viðskiptum og samningafrelsis á vinnumarkaði þegar kemur að læknum og fjölskyldum þeirra. Fjármálaráðherra hefur lausnina í hendi sér. Hann verður að veita samninganefnd sinni raunverulegt umboð. Vonandi reynist nýr landlæknir honum ráðagóður þegar hann hann hefur sett sig inn í málin og skilur alvöruþunga og samstöðu lækna til að bæta heilbrigðiskerfið nú en ekki síðar. Hann verður vonandi ekki dragbítur á þá endurreisn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×