Innlent

Frétti af brottvikningunni á Fésbókinni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Myndband með handtökunni hefur vakið mikla athygli eftir að það var birt á fésbókinni.
Myndband með handtökunni hefur vakið mikla athygli eftir að það var birt á fésbókinni.
Lögreglumanni, sem handtók ölvaða konu á Laugavegi um síðustu helgi, var vikið tímabundið frá störfum í gær. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er talsverð gremja meðal lögreglumanna vegna þess hvernig að brottvikningunni var staðið. Handtakan var tekin upp og vakti mikla athygli þegar hún var sýnd víða um netheima.

Á meðal þess sem er gagnrýnt er að lögreglumaðurinn sem sést á myndbandinu frétti það á Fésbókinni að búið væri að leysa hann frá störfum meðan á rannsókn málsins stæði. Ríkislögreglustjóri fór fram á að það yrði gert og varð Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, við því. Ríkissaksóknari mun rannsaka málið.

„Þetta gerðist allt mjög hratt og því getur verið að hann hafi heyrt af þessu með einhverjum öðrum hætti en við tilkynntum þetta viðeigandi aðilum eins fljótt og okkur var unnt," segir Stefán. „Það er vissulega óheppilegt ef fólk fær svona fréttir frá einhverjum öðrum leiðum en ekki frá okkur beint en hann fékk vitneskju frá okkur í hvaða farveg þetta færi löngu áður en það komst í fjölmiðla."

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að skoða verklag lögreglunnar eftir að málið komst í hámæli. Á myndbandinu sést hvernig konan veitist að lögreglumönnum í bíl, en í kjölfarið vindur einn þeirra sér út, skellir henni í götuna og handjárnar hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×