Innlent

Frelsissvipting í Fellsmúla ekki klippt og skorin

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglan var með umfangsmiklar aðgerðir fyrir utan Fellsmúla í síðustu viku.
Lögreglan var með umfangsmiklar aðgerðir fyrir utan Fellsmúla í síðustu viku. vísir/gva
Öllum þeim sem handteknir voru í tengslum við meinta frelsissviptingu í Fellsmúla í síðustu viku var sleppt strax að lokinni yfirheyrslu og áverkar brotaþola þóttu ekki alvarlegir og ekki koma heim og saman við frásagnir af atburðinum. Þetta herma heimildarmenn Fréttablaðsins innan lögreglunnar.

Það var fimmtudaginn 1. desember sem ljósmyndari Fréttablaðsins varð vitni að umfangsmiklum lögregluaðgerðum við Fellsmúla í Reykjavík. Þar voru tveir menn handteknir og meint fórnarlamb frelsissviptingar leitt út í sjúkrabíl á nærbuxum einum klæða.

Þolandi greindi lögreglu frá því að honum hefði verið haldið í íbúð á fjórðu hæð hússins í tvo sólarhringa og verið beittur ofbeldi. Hann sagðist hafa sloppið úr íbúðinni með því að klifra af fjórðu hæð hússins yfir tvær hæðir og þaðan niður á þriðju hæð. Á þriðju hæð hleypti íbúi honum inn og gat gert lögreglu viðvart.

Þeim sem handteknir voru á vettvangi var sleppt. Í kjölfarið hóf lögregla leit að pari búsettu í íbúðinni sem gaf sig fram um sólarhring síðar. Parinu var sleppt en heimildir Fréttablaðsins innan lögreglunnar herma að málið þyki ekki jafn alvarlegt og upphaflega var talið. Illa gangi að ná tali af brotaþola en allt kapp sé lagt á að komast að hinu sanna í málinu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Parið gaf sig fram og tveir lausir úr haldi

Tveimur mönnum sem handteknir voru við Fellsmúla í fyrradag var sleppt í gær. Ung kona sem býr í íbúð sem maður flúði úr og var leitað gaf sig fram við lögreglu. Málið ekki „klippt og skorið“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×