Innlent

Frásögn starfsmanna ólík Ólafs

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Upplýsingar starfsmanna Þingvallaþjóðgarðs stangastá við orðyfirmanns þeirra.
Upplýsingar starfsmanna Þingvallaþjóðgarðs stangastá við orðyfirmanns þeirra. Fréttablaðið/GVA
„Viðbrögð Ólafs vekja mikil vonbrigði en til þessa hef ég átt gott samstarf við hann og ráðlagt honum og Þingvallanefnd heilt um málefni þjóðgarðsins. Þar byggi ég m.a. á áratugareynslu af rannsóknum í Þingvallavatni, sem enn standa yfir,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, en Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður sagði í Fréttablaðinu í gær að Hilmar færi með rangt mál þegar hann staðhæfði að skólpvatn sytri út í umhverfið úr þróm í þjóðgarðinum og á vatnasviði Þingvallavatns.

„Fyrir aðeins rúmri viku fór ég á Þingvöll ásamt fræðimönnum sem þekkja vel til náttúru svæðisins gagngert til að spá í fráveitumál. Þar var rætt við tvo starfsmenn Ólafs Arnar um fráveitumál á Hakinu, við þjónustumiðstöðina á Leirum og fleiri stöðum. Þær upplýsingar sem starfsmennirnir veittu um ástand mála staðfesta mitt mál og stangast á við ávirðingar Ólafs Arnars,“ segir Hilmar.

Hilmar segir enn fremur að viðbúið sé að á álagstímum, þegar mikill fjöldi heimsækir þjóðgarðinn, sytri skólpvatn út í umhverfið, enda séu langflest kerfin á staðnum sett upp með það í huga, samkvæmt þeim gögnum sem hann hefur undir höndum um fyrirkomulag við rotþrær, syturlagnir og tæmingu þróa.

Hilmar ítrekar þá skoðun sína, sem Ólafur segir vera aulabrandara, að á meðan fráveitukerfi í þjóðgarðinum séu ekki afkastameiri en gögn bendi til sé eðlilegt að gestir hlífi þjóðgarðinum eftir bestu getu.

Nánar má lesa um afstöðu Hilmars í aðsendri grein hans á visir.is. 


Tengdar fréttir

Þingvallavatn – viðkvæmur viðtaki

Fjörleg umræða hefur staðið yfir að undanförnu um erlenda ferðamenn og álag af þeirra völdum á náttúru, menn og mannvirki. Gróður og jarðvegur láta á sjá, biðraðir myndast við afgreiðslur og salerni hafa ekki undan, jafnvel þannig að fólk gerir þarfir sínar í næsta runna.

Rangt að skólpvatn leki í Þingvallavatn

Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum segir skrif forstöðumanns Náttúruminjastofnunar Íslands, þar sem hann segir frárennslismál í þjóðgarðinum í ólagi, þvætting. Ekkert skólpvatn leki út í Þingvallavatn, allt frárennsli sé keyrt í burtu úr garðinum.

Gestir Þingvalla kasti af sér vatni fyrir komu

Forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands varar við álagi á Þingvelli vegna aukins ferðamannafjölda þar sem fráveita skólps er ekki viðundandi. Hann leggur til að gestir verði beðnir um að létta á sér fyrir komu í þjóðgarðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×