Skoðun

Framleiðsludeild Sjúkrahúsapóteks Landspítalans

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir og Guðrún Indriðadóttir skrifar
Innan veggja sjúkrahúsa vinna lyfjafræðingar margvísleg störf, sem sum hver eru mjög framandi fyrir almenning. Í apóteki Landspítalans er starfrækt framleiðsludeild, þar sem blöndun á lyfjum og næringu sem gefa á í æð fer fram. Þar er unnið með verklagi sem kallast smitgát. Blöndun með smitgát felur í sér að koma eftir fremsta megna í veg fyrir að örverur (bakteríur, veirur, sveppir) sem og önnur óhreinindi komist í lyfin. Það krefst vandaðra og agaðra vinnubragða starfsmanna og þarf vinnurýmið að uppfylla strangar kröfur.

Með þessu verklagi er hættu á sýkingum haldið í lágmarki, sem annars væru daglegt brauð. Þjálfun starfsmanna í blönduninni er því lykilatriði. Gerðar eru kröfur um ítarlega þjálfun áður en vinna er hafin þar. Framleiðsludeild Sjúkrahúsapóteks Landspítalans er eini staðurinn á Íslandi þar sem vinna með smitgát fer fram. Þar eru til dæmis blönduð krabbameinslyf. Blöndun krabbameinslyfja krefst mikillar nákvæmni og agaðra vinnubragða. Hver skammtur er blandaður sérstaklega, enda eru skammtar reiknaðir út fyrir hvern og einn sjúkling að teknu tilliti til hæðar, þyngdar og heilsufars viðkomandi.

Næring í æð fyrir fyrirbura á vökudeild er útbúin á deildinni, sem og næring í æð fyrir börn og fullorðna sem ekki geta nærst öðruvísi af einhverjum ástæðum. Þegar gefa á sjúklingum næringu í æð þarf að huga að því hvaða skammtar henta hverjum og einum til að fullnægja orkuþörf viðkomandi auk þess sem stundum þarf að taka sérstakt tillit til sjúkdómsástands.

Deildin framleiðir einnig augndropa, verkjalyf og fleiri sérhæfð lyf sem blanda þarf með smitgát. Auk þess að vinna við og hafa umsjón með blöndun lyfja veita lyfjafræðingar  í Framleiðsludeild apóteksins ráðgjöf til annarra starfsmanna Landspítalans um hvaðeina sem lýtur að blöndun lyfja, geymslu þeirra og stöðugleika. Þeir koma einnig að kennslu lyfjafræðinema enda er þetta eini staðurinn á landinu sem verðandi lyfjafræðingar geta kynnst vinnu með smitgát.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×