Skoðun

Forsendubrestur námslána

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán vegna forsendubrests. Á sama tíma kýs hún að horfa fram hjá hækkun verðtryggðra námslána, þótt sami forsendubrestur eigi við um þau. Grunnstefið í boðuðum leiðréttingum er jafnræði lántakenda. Greiðsluvandi eða greiðslugeta er því ekki mælikvarðinn, heldur hækkun vegna verðbólgu.

Öll verðtryggð húsnæðislán verða færð niður uns ákveðnu hámarki er náð. Miðað við þessar forsendur er ekki forsvaranlegt að skilja verðtryggð námslán útundan. Endurgreiðsla námslána miðast vissulega að stórum hluta við tekjur fólks, en verðbólga lengir í lánunum. Árlegar greiðslur af námslánum nema tæpum mánaðar ráðstöfunartekjum. Margir munu greiða tæplega einn tólfta af ráðstöfunartekjum sínum alla starfsævina og öll eftirlaunaárin ef svo ber undir. Þeir sem tóku námslán fyrir hrun munu því greiða af þeim mun lengur en þeir gerðu ráð fyrir í upphafi og mörgum mun ekki endast ævin til að greiða lánið til baka.

Dæmi af grunnskólakennara

Þar sem ríkisstjórninni virðist fyrirmunað að skilja eðli þessa máls er rétt að taka dæmi til skýringar. Tökum dæmi af grunnskólakennara sem hóf nám haustið 2000 þá 21 árs (f. 1979) og lauk meistaraprófi vorið 2005. Hún tók fullt framfærslulán allan námstímann og fékk lán með einu barni en ekki makalán. Hún hóf strax vinnu sem grunnskólakennari og byrjaði að greiða af námsláninu í júní 2007. Þegar spáð er fram í tímann er auðvitað alltaf umdeilanlegt hvaða forsendur eigi að gefa sér, en í okkar dæmi er gert ráð fyrir launaþróun eins og hún var til ársloka 2013, en eftir það hækki laun um 4% á ári. Ekki er gert ráð fyrir að laun taki hækkunum vegna starfsaldurs eða annars. Verðlag hækkar samkvæmt rauntölum til janúar 2014 en eftir það um 2,5% á ári. Hér er því gert ráð fyrir 1,5 % kaupmáttaraukningu á ári.

Lán kennarans hefur hækkað um rúm 60% frá því að námi lauk, þrátt fyrir afborganir í 7 ár. Það er ljóst að miðað við gefnar forsendur mun kennaranum ekki endast starfsævin til að greiða námslánið. Við 67 ára aldur verður skuldin 6,8 milljónir. Þetta sést mjög skýrt á meðfylgjandi mynd þar sem blái ferillinn sýnir þróun lánsins miðað við þær forsendur sem við gefum okkur.

Dæmið má reikna með öðrum hætti. Ef verðbólga hefði verið 2,5% frá því námið hófst haustið 2000 getur kennarinn greitt lánið upp áður en hún verður 67 ára, að því gefnu að árleg kaupmáttaraukning verði 1,5%. Rauði ferillinn á myndinni sýnir þetta.

Eins og fyrr segir má reikna þetta dæmi með ólíkum forsendum. Það er til að mynda ekki líklegt að verðbólga verði 2,5% á ári áratugum saman og þá verður lánið enn hærra við starfslok. Ég legg til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fái dr. Sigurð Hannesson eða aðra sérfræðinga til að reikna dæmið með ólíkum forsendum. Það er í raun sérstakt að forsætisráðherra hafi ekki nú þegar látið gera þetta óumbeðinn. Niðurstöðurnar má síðan kynna í Hörpu eða annars staðar, t.d. kennarastofu Menntaskólans við Hamrahlíð.

Hvað er til ráða?

Dæmið af grunnskólakennaranum varpar skýru ljósi á forsendubrest námslána. Æfingar af þessu tagi ættu þó að vera óþarfi. Öllum sem tóku námslán fyrir hrun er ljós hækkun þeirra og hvaða afleiðingar það hefur. Það eru engar málefnalegar forsendur fyrir því að skilja námslán eftir þegar verðtryggð lán eru leiðrétt. Stjórnvöld hafa tvo kosti í stöðunni til að bæta fólki forsendubrestinn. Annars vegar launahækkun og hins vegar niðurfærslu skulda.

Grunnskólakennarinn þyrfti að fá 49% hækkun launa núna og svo 4% á ári eftir það alla starfsævina að því gefnu að verðbólga verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans sem er 2,5% ársverðbólga allt til ársins 2046 þegar kennarinn verður 67 ára.

Lán kennarans verður nú um mitt ár 2014 um 7,2 milljónir króna og það þyrfti að lækka um 2,2 milljónir eða 30% til að kennarinn nái að greiða upp lánið sitt fyrir 67 ára aldur. Samhliða því þarf hann þó að fá 1,5% kaupmáttaraukningu á ári sem þýðir árlega launahækkun upp á 4% miðað við að verðbólga verði 2,5%.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×