Skoðun

Fordómar, fóstureyðingar og pólitískur rétttrúnaður

Stefnir Snorrason skrifar
Orðið fordómar er að verða gjaldfallið orð á okkar tímum. Orðið fordómar er notað sem sleggja á tilfinningar og lífsskoðanir annars fólks þ.e.a.s. þeirra sem ekki deila sömu sýn og þú sjálf/ur. Til þess er gripið óspart svo að hægt sé að koma höggi á skoðun andstæðinga í málefnum og til að þyrla eins miklu ryki upp í deilunni svo hægt sé að kaffæra andstæðinginn sem óvæginn villimann/konu með skoðun sem er stórhættuleg mannannabörnum og umhverfinu.

Mikið hefur verið rætt um kristið fólk á samfélagsmiðlum og virðist kristin trú eiga verulega undir högg að sækja í nútímasamfélagi. Skoðanir kristinna eru fjandsamlegar frjálshyggjunni því að „bókin“ sem mörg okkar trúa og vilja lifa eftir er svo gömul að hún er talinn geyma forneskju hugsun. Samt er það svo að fræðibækur sem kenndar eru í hinum og þessum skólum á háum og láum stigum eru ekki beint frá síðasta áratug og ekki heldur margar kenningar þeirra. Og þeim mun eldri sem bækurnar eru þykja þær magnaðri. Þættir í sjónvarpinu sýna okkur hvernig fólk í fyrndinni lifði og byggði heilu heimsveldin með undraverðum hætti á gömlum gildum og fólk fyllist aðdáun. En ef það er úr „bók bókanna“ er það oftast rifið í svaðið og menn hæðast að henni sem enginn væri morgundagurinn.

Lífið í móðurkviði

Mikið hefur verið rætt um siðferðilegar spurningar sem biblían kennir. Nú ber hæst að bænadagskrá Kristdagsins setti fram þá bæn að viðhorfsbreyting mætti verða innan samfélagsins hvað varðar fóstureyðingar. Mál sem búið er að koma þannig fyrir að enginn þorir að nefna það því þá fara háværu raddirnar af stað sem hrópa fordómar- fordómar ! Og tröllin fara stórum í netheimum. Eitthvað sem slær þann sem ekki er samþykkur fóstureyðingum utan undir eins og skömmin sé hans að þora að nefna þær á nafn. Mikið er rætt um rétt móður til þess að ráða yfir eigin líkama og gjörðum eins og einhver sé að andmæla því.  En öll vorum við í sporum þessara barna á sínum tíma en til allrar hamingju var okkur ekki eytt. Horfir einhver heilvita maður á barn sitt í dag og hugsar; „ Ég vildi óska þess að þú hafir ekki fæðst inn í þennan heim.“ Það vona ég ekki.

En við sitjum ekki alveg auðum höndum hvað börnin varðar. Við höldum sjónvarpssafnanir fyrir Unicef og berjumst með blátt áfram. Við höfum barnahús, barnaverndarnefnd og talsmann barna. Við söfnum fyrir hungruðum heimi og ávallt sýna auglýsingarnar fyrir herferðunum myndir af börnum í vanda. Sem sagt, ef einhver vá vofir yfir hugsum við fyrst og fremst til barnanna hvar sem þau í heiminum. Af hverju ? Því þau eru sakleysið uppmálað, varnarlaus og í okkur er eitthvað innbyggt til þess að koma þeim til hjálpar. En af hverju er móðurkviðurinn undanskilinn ? Hver er talsmaður þeirra barna annar en þú og ég ? Þau treysta alfarið á okkur og hvaða val við tökum.

Árið 1935 voru fyrstu fóstureyðingarnar leyfðar á Íslandi en þá aðeins ef læknir framkvæmdi fóstureyðingu á þeim forsendum að líf móðurinnar væri í hættu. Árið 1938 bættist við heimild til fóstureyðinga ef um nauðgun eða sifjaspell var að ræða. Núverandi löggjöf var sett árið 1975 og heimilar fóstureyðingar af „félagslegum ástæðum“ jafnt sem læknisfræðilegum og ef kona hefur orðið fyrir nauðgun. Mér dettur ekki til hugar að særa eða lemja á konum sem hafa eytt því lífi sem eitt sinn blómstraði í móðurkviði þeirra og það er ekki ætlun mín með þessum skrifum. Hjarta mitt, hugur og samúð er með þeim. Þær einar vita hvað þær upplifa þó allir reyni að lokum að bera sig vel. En hjarta mitt er líka hjá ófæddu krílunum sem helst ekki má nefna því það gæti sært einhvern. En „vel meint eru vina sárin“ sagði einhver.

Mér finnst bara óhuggulegt að vita hversu mörgum lífum hefur verið eytt hérlendis. Þarf þetta að vera svona mikið ? Talnabrunnur landlæknis segir  t.d. að frá árinu 2000 hefur rúmlega 900 börnum verið eytt á hverju ári. Svo ég tali nú ekki um lengra aftur. Þetta er enginn smá fjöldi. Allir þessir einstaklingar gætu verið systkini, feður, mæður, afar og ömmur, forsetar, ráðamenn, listamenn, snillingar, bjargvættir, gleðigjafar og yndisaukar iðandi mannlífs. Hugsanlega var einhverjum eytt sem hefði verið sá einstaklingur sem væri ætlað að leiða okkur út úr hinu fræga hruni og kreppu böli. Hver veit ? Erum við að flýta okkur um of ? Er tilgangur okkar bara að hafa það of gott. Ekkert má trufla framgang frama og frægðar, menntunar og einstaklingsfrelsis. Teljum við kannski börnin okkar frelsisskerðingu ? Er í alvöru nauðsynlegt að eyða svona mörgum börnum ? Getum við kannski byrjað bara á að minnka þessa tölu ? T.d með því að leggja ekki bara áherslu á unga fólkið okkar að nota getnaðarvarnir, heldur að blása þeim í brjóst það breytta viðhorf að það borgi sig að bíða og vera ábyrg í hegðun og hugsun er varðar samskipti kynjanna af kynferðislegum toga. Að það sé alls ekki fáránlegt eða hallærislegt að selja ekki mey/sveindóminn ódýrt. Heldur að varðveita hann því hann er dýrmætur og er ekki til að gefa bara einhverjum eða einhverri. Hvað með að blása þeim í brjóst þá sýn sem ég heyrði frá konu sem kenndi mér heilbrigðisfræði eitt sinn og ég hef varðveitt í hjarta mínu allar götur síðan; „Manneskja er ekki tilbúin til að stunda kynlíf, fyrr en hún/hann er tilbúin til að axla þá ábyrgð að eiga og ala upp barn !“

Fræðslan, umvöndunin og lífsins leiðbeiningar byrjar hjá okkur foreldrunum. Gætum þess bara og hugsum vandlega hvert við stefnum í þessum málum og því mikla frjálsræði sem okkur hefur verið veitt í þessum málum sem öðrum. Stundum virðist okkur íslendingum það ofviða því við missum svo margt úr böndunum.

Þjónn Guðs eða fólksins ?

Annað sem ég skil ekki eru „prestar guðs“ innan hinnar evangelísku lútersku kirkju okkar. Hvernig sumir þeirra virðast ekki geta komið hreint fram þegar þeir eru spurðir „óþægilegra spurninga“ fréttamanna og virðast varla geta komið sér saman um hverju eigi að trúa, eða hvernig á að biðja og um hvað, þjóðinni til heilla. Sumir þeirra virðast hugsa mest um hvað hentar tíðarandanum og hvernig þau geta haldið prestdómnum og væntanlega góðum launum án þess að stíga á einhvern eða segja eitthvað sem þjóðfélagið þarf að heyra en vill ekki eða þolir ekki.

Enginn vill verða óvinsæll, það skil ég vel. En ég vil gera þá kröfu að þau þekki ritningarnar og séu ærleg um hvað þau eiga að standa fyrir. Ef prestur getur ekki kennt ritningarnar þá er kannski bara annað starf hentugra fyrir hann. Er kirkjan kannski búin að selja svo mikið „land fyrir frið“ ef svo má að orði komast, að hún á ekkert land eftir í hjörtum íslendinga ? Eru prestar guðs sekir við nafn guðs og orð hans því þau eyða öllum sínum kröftum í að verja sitt eigið nafn en ekki nafn Drottins og þeim gildum sem þeir eru kallaðir til að þjóna. Kirkjur landsins eru margar svo til tómar og ekkert líf í þeim að virðist. Eru gömlu gildin um að elska náungan, biðja fyrir óvinum sínum, elska og varðveita lífið eru bara orðnar klisjur einar ? Er það kannski vegna þess að prestarnir trúa ekki lengur orðum biblíunnar ? Þeir eru eins og sölumenn sem hafa enga trú á þeirri vöru sem þeir reyna að selja þér.

Það endar bara á þann veg að enginn vill kaupa vöru sem sjálfur sölumaðurinn hefur enga trú á lengur og jafnvel fyrirlítur í hjarta sínu án þess að viðurkenna það. Sérstaklega finnst mér sárt að horfa uppá suma yngri presta landsins sem hrækja með orðum sínum, atferli á allt sem heitir guð, helgur dómur og hið heilaga orð. Þegar þeir opna munninn heyra þeir sem til þekkja að á bakvið raddir þeirra er „hviss“ gamla höggormsins sem kemur sem ljósengill til fólksins með fagurgala og múgsefjun sem svæfir sálina. Hann er sannleikur en blandaður smá lygum sem að lokum afvegaleiðir áheyrandann. Getur það útskýrt ástand siðferðis okkar þjóðfélags sem hefur breyst en ekki endilega til hins betra sl. 40 ár ? Mættum við heldur heyra þá ljúfu rödd sem dregur manninn að sér til iðrunar. Að maðurinn sjái hvar hann er sekur við orð guðs og náunga sinn og upp kemur löngun í hjarta til þess að gera það sem rétt er með gleði í hjarta og brosi á vör.

Höldum áfram að gera það sem gott er. Virða skoðanir hvers annars, varðveita og elska hvert annað og leiðbeina í gegnum „lífið“, sem okkur sem lifum og var ekki eytt er svo innilega kært. Mættu fleiri fá að lifa, vaxa og dafna sem gleði okkar allra.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×