Innlent

Fordæmalaus fjöldi kvartana flugliða WOW air

andri ólafsson skrifar
Flugfreyjur hjá WOW telja að flugfélagið brjóti gegn rétti þeirra til hvíldartíma.
Flugfreyjur hjá WOW telja að flugfélagið brjóti gegn rétti þeirra til hvíldartíma.
Fordæmalaus fjöldi kvartana er á borði Flugfreyjufélags Íslands frá flugliðum WOW air. Kvartanirnar snúa aðallega að meintu broti á kjarasamningum varðandi hvíldartíma flugliða. Þetta staðfestir Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, en hún telur WOW air brjóta reglur um hvíldartíma með því að fara gegn ákvæðum kjarasamnings.

Samkvæmt kjarasamningi eiga flugliðar ekki að vera með vinnuplan í fleiri en sex daga í röð. Reglurnar eru ekki nýjar en þær hafa verið í kjarasamningum við aðra flugrekendur í tugi ára.

Flugfreyjufélag Íslands hefur ítrekað bent WOW air á hið meinta brot en flugfélagið túlkar samninginn á annan veg. „Þau nota hvíldarákvæði sem samið er um í kjarasamningi sem tækifæri til að brjóta upp sex dagana. Hvíldardagur hefur aldrei verið túlkaður sem lögbundinn frídagur. Vaktahvíld á milli fluga á ekki að brjóta upp sex daga regluna.“

Þá hefur ASÍ einnig gripið inn í og sendi WOW air greinargerð á dögunum þar sem fram kemur það mat að brotið sé á flugliðum. Þetta staðfestir Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, og segir að ASÍ taki undir röksemdir Flugfreyjufélagsins.

Engar kvartanir hafa borist frá flugliðum Icelandair. „Þetta hefur alltaf verið virt af Icelandair í gegn um árin.“

Sigríður tekur dæmi um flugliða sem fer í flug til Evrópu á mánudegi og þriðjudegi. Næst er flug til Bandaríkjanna á miðvikudegi. Flugliðinn kemur heim á föstudegi og ætti þá að fá tveggja nátta hvíld. „WOW air hefur ekki fylgt því og hefur sent flugliða í annað flug næsta dag. Flugliðar ættu ekki að mega fara fyrr en á sunnudeginum. Þarna eru þau að vinna í sjö daga í röð sem má ekki.“

Til skoðunar er að ganga lengra í málinu. „Á næstunni munum við skoða hvort farið verði í einhverjar aðgerðir eða með málið fyrir félagsdóm. Ásetningsbrot aðila á samningi getur vikið friðarskyldu til hliðar.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins veigra sumir flugliðar sér við að kvarta vegna málsins þar sem þeir hræðist það að það hafi áhrif á framtíð þeirra hjá fyrirtækinu.

Sigríður segist hafa heyrt af þessu. „Þetta er auðvitað bara ein aðferðafræði í ógnunarstjórnun, að fólki finnist það ekki geta leitað réttar síns.“

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air segir félagið hafna því alfarið að reglur um hvíldar­tíma flugliða séu ekki virtar hjá félaginu. „WOW air fylgir í starfsemi sinni opinberum reglum um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugliða. Allar vaktaskrár eru í samræmi við reglurnar og er öllum flugliðum veittur hvíldartími í samræmi við reglurnar og ákvæði kjarasamnings.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×