Innlent

Fólk leiti fyrr í mataraðstoð vegna hækkunar matarskatts

Umsjónarmaður Hjálparstarfs kirkjunnar segir að þeim sem þiggi mataraðstoð muni koma til með að fjölga, og að þeir sem áður hafa þegið aðstoð þurfi að þiggja hana fyrr, vegna hækkunar á matarskatti. Mótvægisaðgerðir á borð við afnám vörugjalda gagnist þessum hópi lítið sem ekkert.

Þegar árið 2015 gekk í garð hækkaði matarskattur úr 7% í 11%. Vilborg Oddsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að hærri matarskattur hafi víðtækar afleiðingar fyrir þá sem ekki ná endum saman.

„Þetta hefur gífurleg áhrif og þegar þú áttir ekki nóg fyrir áður munar þig auðvitað um hvern fimmþúsund kall. Fólk þarf þá bara að ákveða fyrr hvort það leyfir börnunum að fara í skólaferðalög eða leiti sér mataraðstoðar," segir hún.



Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar við hækkun matarskatts voru til að mynda afnám vörugjalda og sykurskatts auk þess sem lyf lækkuðu í verði. Vilborg segir þær aðgerðir ekki vega upp á móti hækkun matvæla.

„Þetta er hópur sem fyrir var að kaupa sér notaðar heimilisvörur og kaupir ekki raftæki nema í brýnustu neyð. Vörugjöldin hafa ekki áhrif á þeirra hag en matarskatturinn hefur bein áhrif“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×