Innlent

Flestar leiðir ófærar á Vestfjörðum

Gissur Sigurðsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Allar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar og verið er að moka þær.
Allar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar og verið er að moka þær. Mynd/Róbert Reynisson
Flestar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar og verið er að moka þær. Súðavíkurhlíð og Raknadalshlíð eru einnig enn lokaðar vegna snjóflóðahættu. Verið er að moka á Bröttubrekku og Fróðárheiði, sem enn sem komið er eru ófærar. Þá er hálka og skafrenningur í Svínadal en annars er hálka eða hálkublettir á Vesturlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hættuástand vegna snjólóða er enn á Vestfjörðum og er rýming húsa á Patreksfirði og Tálknafirði áfram í gildi, en það verður endurskoðað fyrir hádegi, enda er óveðrið gengið niður á Vestfjörðum.

Snjóflóð féllu víða á svæðinu í fyrrinótt en hvergi hlaust tjón af. Töluvert snjóaði á Ísafirði í gærkvöldi og í nótt , og líklega víðar á fjörðunum, en snjóeftirlitsmenn meta stöðuna um leið og birtir.

Ekkert hefur heldur verið flogið til Ísafjarðar vegna veðursins, en væntanlega rætist úr því í dag

Hálka og snjóþekja víða um land

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Þá er snjóþekja og hálka á Suðurlandi og þæfingsfærð á Lyngdalsheiði.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á flestum leiðum á Norðurlandi. Á Vatnskarði er þungfæt og skafrenningur en þæfingsfærð á Öxnadalsheiði. Sömu sögu er að segja af Mývatnsöræfum og Vopnafjaðrarheiði.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fletum leiðum á Austurlandi. Snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal en hálka og skafrenningur á Fjarðaheiði og Oddskarði.

Hálka eða hálkublettir er með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×