Innlent

Flensan fyrr á ferðinni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hin árlega flensa fær marga til að hnerra.
Hin árlega flensa fær marga til að hnerra. Vísir/Getty
Flensan virðist vera að fara af stað og vera fyrr á ferðinni en áður. Tveir hafa greinst með inflúensu í þessari viku. Sóttvarnarlæknir segir að von sé á meira inflúensubóluefni á heilsugæslustöðvarnar á næstunni en það hefur verið ófáanlegt á landinu um nokkurt skeið.

Jafnan má gera ráð fyrir því að seinni hluta desember eða í janúar taki landsmenn að veikjast af hinni árlegu inflúensu. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að svo virðist sem hún sé þegar tekin að ganga, nokkuð fyrr en venja er.

„Inflúensan greindist hérna fyrst, nokkur tilfelli, í september síðastliðnum sem var mjög snemma en síðan virtist ekki verða neitt meira úr því. Nú er aftur að bera á einstaka tilfellum og það hafa greinst núna tveir einstaklingar í þessari viku með inflúensuna þannig að spurningin er hvort að hún sé svona að fara af stað. Það er yfirleitt þannig að hún byrjar mjög hægt og hefur hægt um sig svona oft í nokkrar vikur og síðan fer hún á skrið. En hún virðist vera aðeins fyrr á ferðinni núna heldur en oft áður og það sama segja fréttir frá Evrópu í öðrum löndum. Hún er svona aðeins heldur fyrr á ferðinni en áður,“ segir Þórólfur Guðnason.

Þórólfur segir að bóluefni hafi verið ófáanlegt á landinu nú um nokkurt skeið. Margir landsmenn hafa þó þegar verið bólusettir.

„Það er búið að dreifa núna 65.000 skömmtum af inflúensubóluefni. Það er miklu miklu meira heldur en nokkurn tímann hefur verið gert áður einhverra hluta vegna og við eigum von á aukaskömmtum, 5.000 skömmtum, sem að verður að öllum líkindum dreift til heilsugæslunnar í næstu viku. Við eigum eftir að útfæra það aðeins nánar en planið er núna að það verði gert í næstu viku,“ segir Þórólfur Guðnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×