Fjöldi Íslendinga á fé inni á gleymdum dönskum bankareikningum
Jakob Bjarnar skrifar
Umreiknað í íslenskar krónur þá eru þetta 1,7 milljarður sem liggur á reikningum í dönskum bönkum, reikningum sem virðast gleymdir.
Í lögbirtingarblaði þeirra Dana auglýsa skattayfirvöld eftir fólki sem hugsanlega á inni fé á sparnaðarreikningum í dönskum bönkum. Ekki er um neinar smáupphæðir að ræða, þar liggja samtals sem nemur 1,7 milljörðum íslenskra króna á reikningum sem ekki hafa verið hreyfðir í tvö ár og lengur.
Samkvæmt upplýsingum sem dönsk skattayfirvöld hafa fengið frá 38 dönskum bönkum er um að ræða 8,500 reikninga og eru upphæðirnar á sumum reikninganna verulegar. Hæsta innistæðan á einum reikningi er hátt í hundrað milljónir íslenskra króna.
Í leitarvél á vefsíðunni TV2 er hægt að leita að Íslendingum, til dæmis með orðunum dóttir og sson.Fyrir liggur að fjöldi Íslendinga er skráður fyrir dönskum reikningi. Þetta kemur á daginn þegar slegið er inn í leitarvélina dottir. Þá koma upp 32 nöfn. Erfiðara er að eiga við karlkynsnöfnin en væntanlega eru þau ekki færri. Reikningarnir geta verið til komnir af ýmsum ástæðum; sparnaðarreikningar barna sem bjuggu í Danmörku á yngri árum eða orlofs- eða lífeyrissparnaður þeirra sem hafa starfað í Danmörku.
Frestur til að vitja reikninganna rennur út í október á næsta ári þannig að það er um að gera að fletta þessu upp. Því að þeim tíma liðnum mun danska ríkið gera tilkall til þessara reikninga.