Lífið

Fjölbreyttur ferill Ellen DeGeneres

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ellen DeGeneres er hress týpa.
Ellen DeGeneres er hress týpa. Nordicphotos/Getty
Fyrsti þátturinn af The Ellen DeGeneres Show fór í loftið 8. september árið 2003 og er 13. sería þáttarins nú í sýningu. Kynnir og stjórnandi í þáttunum er Ellen DeGeneres.

Ellen ættu nú flestir að kannast við en hún hóf ferilinn sem uppistandari og náði talsverðri athygli á því sviði og var hún meðal annars fyrsti kvenuppistandarinn sem boðið var í settið í spjall eftir uppistand sitt í The Tonight Show Starring Johnny Carson. Að komast þar að og hvað þá að setjast í settið og ræða við Johnny Carson var álitið eitt besta tækifærið í bransanum fyrir grínista á þessum tíma.

Ellen reyndi einnig fyrir sér sem leikkona og margir kannast við hana sem rödd Dory í teiknimyndinni Finding Nemo. Einnig hefur hún leikið lykilhlutverk í tveimur leiknum sjónvarpsþáttaröðum, Ellen og The Ellen Show. Í fjórðu seríu af þættinum Ellen árið 1997 kom hún út úr skápnum þegar hún var gestur í spjallþætti Oprah Winfrey, stuttu síðar kom karakter hennar í þættinum, Ellen Morgan, einnig út úr skápnum hjá sálfræðingi sínum sem leikinn var af sjálfri Oprah, og vakti það talsverða athygli.



Hún hefur einnig verið kynnir á Óskars- og Grammy- og Emmy-verðlaunahátíðum við góðar undirtektir enda þykir hún vera fyndin. Sjálf hefur hún hlotið þrettán Emmy-verðlaun, fjórtán People's Choice verðlaun auk ýmissa annarra verðlauna á ferlinum.

Óhætt er að segja að þættir hennar hafi hlotið prýðis viðtökur og eiga þeir sinn fasta áhorfendahóp og horfa að meðaltali 3,9 milljónir manna á hvern þátt sem telst ansi gott. Þættirnir hafa fengið alls 38 Daytime Emmy Awards og hefur Ellen sjálf unnið People's Choice Award sem besti kynnir í dagsjónvarpi fjórtán sinnum.

Í þáttunum er fjöldi endurtekinna atriða og þemu, sem dæmi má nefna móður Ellenar, Betty, sem heimsækir þáttinn reglulega og einnig dansar Ellen sjálf í upphafi hvers þáttar, stundum dansar hún inn í áhorfendahópinn og fær jafnvel lánað eitthvað frá áhorfendum, eins og hatt eða flík sem hún klæðist.

Sýningar á The Ellen DeGeneres Show hefjast þann 7. mars á Stöð 2 og verður þátturinn sýndur mánudaga til fimmtudaga klukkan 17.45.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×