Innlent

Fimmtungur háskólastúdína kvíðinn eða með þunglyndi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Samkvæmt rannsókninni leitar innan við þriðjungur þeirra sem upplifa vanlíðan sér faglegrar aðstoðar.
Samkvæmt rannsókninni leitar innan við þriðjungur þeirra sem upplifa vanlíðan sér faglegrar aðstoðar.
Niðurstöður doktorsverkefnis Jóhönnu Bernharðsdóttur, lektors í geðhjúkrun við Háskóla Íslands, sýna að 22,5 prósent kvenstúdenta í háskóla glíma við vanlíðan í formi þunglyndiseinkenna og 21,2 prósent í formi kvíðaeinkenna.

„Vanlíðanina má rekja til þess að nemendur eru að ganga í gegnum miklar breytingar í lífinu, fara í gegnum háskólanám og síðan ganga inn í fullorðinsárin,“ segir Jóhanna. „Þetta tímabil í lífinu getur skapað álag sem getur birst á þennan hátt.“

Jóhanna tekur fram að karlmenn glími að öllum líkindum einnig við vanlíðan vegna sömu orsaka en erlendar rannsóknir sýni að þessi birtingarmynd vanlíðanar sé algengari meðal kvenna en karla og því hafi hún eingöngu rannsakað konur.

Jóhanna segir mikilvægt að grípa inn í þetta ferli og styðja betur við ungt fólk sem sé að takast á við marga flókna hluti í einu. „Við nútímafólk erum með marga bolta á lofti og ungt fólk þarf að læra betur að glíma við álagið sem getur fylgt því.“

„Ég myndi vilja auka samstarf heilbrigðisstétta við skólakerfið og efla skólahjúkrun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum.“ Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor í geðhjúkrun við Háskóla Íslands.

Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor í geðhjúkrun við Háskóla Íslands
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að innan við þriðjungur þeirra sem upplifðu sálræna vanlíðan fengu faglega aðstoð vegna þess.

Í rannsókn sinni bauð Jóhanna hópnum með aukna sálræna vanlíðan upp á hópmeðferð sem byggist á hugrænni atferlismeðferð og sýndi meðferðin mjög góðan árangur. Jóhanna segir rannsóknina vera sterka vísbendingu um að slík meðferð ætti að standa íslenskum námsmönnum til boða innan háskólaheilsugæslu í náinni framtíð.

„Ég myndi vilja auka samstarf heilbrigðisstétta við skólakerfið og efla skólahjúkrun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Ef þessum þætti í lífi námsmanna er sinnt betur og fyrr þá er hægt að vinna gegn einkennum sem síðar geta orðið alvarlegri.“ 

Meirihluti stúdentanna sem glímdu við vanlíðan í rannsókn Jóhönnu fékk ekki faglega aðstoð vegna tímaskorts, fjárhags eða þeir vissu ekki hvert ætti að leita. Jóhanna segir skólahjúkrunarfræðinga hafa greiðan aðgang að nemendunum og þjónustan sé nærtæk, því sé hægt að vinna mikilvægt forvarnarstarf á öllum námsstigum. 

„Það er fullkomlega eðlilegt að líða illa einhvern tímann á lífsleiðinni,“ segir Jóhanna en ítrekar að það þurfi að kenna ungu fólki að takast betur á við það og auka eigin styrk.

Mikilvægast að hafa áhuga á náminu

Komur til náms- og starfsráðgjafa Háskóla Íslands voru tæplega sjö þúsund í fyrra. Sjö ráðgjafar sinna starfinu og einn sálfræðingur. Hildur Katrín Rafnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við HÍ, segir mikilvægast að áhuginn sé drifkrafturinn í námi.

„Það skapast vandi þegar nemendur hafa engan áhuga á námi sínu heldur velja fag vegna þrýstings eða atvinnumöguleika,“ segir Hildur. Vegna breytinga á vinnumarkaði sé ekki gulltryggt lengur að fá störf að loknu námi.

„Ef þú hefur engan áhuga á náminu og sérð ekki notagildið eða starfsmöguleika að námi loknu getur það valdið vanlíðan í náminu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×