Innlent

Fimm til sjö manns alvarlega slasaðir eftir rútuslysið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fimm til sjö manns eru alvarlega slasaðir eftir rútuslys sem varð skömmu eftir klukkan 10 í morgun á Þingvallavegi við Skálafellsafleggjarann. Þetta kom fram í samtali fréttastofu við Pál Matthíasson forstjóra Landspítalans nú rétt fyrir klukkan 12. Meirihluti farþega rútunnar eru kínverskir en ökumaður og leiðsögumaður eru íslenskir.

„Þetta er alvarlegt rútuslys. Það var 41 farþegi um borð og það eru margir alvarlega slasaðir. Fimmtán fara á heilsugæsluna í Mosfellsbæ, það eru fjórir nokkuð verr slasaðir sem koma hingað á Landspítalann í Fossvogi og svo eru að minnsta kosti fimm sem eru alvarlega slasaðir og eru á leiðinni, einn er reyndar kominn,“ segir Páll.

Páll segir að búið sé að virkja viðbragðsáætlun spítalans.

„Spítalinn er á gulu stigi og það er sjaldgæft en það er gert þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað. Blóðbankinn er tilbúinn sem og gjörgæslan og það er allt tilbúið til að taka við þeim slösuðu.“

Spurður nánar út í hversu margir séu alvarlega slasaðir segir Páll að þeir séu á bilinu fimm til sjö. Hann segist vona að sú tala muni ekki hækka.

„Vonandi lækkar hún. Sjúklingar eru flokkaðir á vettvangi og svona yfirleitt hafa menn nokkuð rétt fyrir sér.“

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á vettvangi í morgun og tók myndirnar að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×