Innlent

Fimm ára börn læri betur með leik en formlegum kennsluaðferðum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fimm ára börn læra betur í gengum leik heldur en með formlegum, beinum kennsluaðferðum. Þetta sýna rannsóknir og segir forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands það ekki bæta námsárangur barna að hefja kólagöngu þeirra árinu yngri en þau byrja nú, líkt og Samtök atvinnulífsins hafa lagt til.

Samtök atvinnulífsins leggja til að skólaganga hefjist við fimm ára aldur í stað sex ára, líkt og er í dag. Málið var rætt á hádegisfundi Samtaka atvinnulífsins í gær þar sem fram kom að slíkt yrði þjóðhagslega hagkvæmt. Samtökin vilja þó að skólaskylda verði áfram tíu ár. Börnin myndu hefja nám ári yngri en þau gera í dag og ljúka grunnskólanáminu 15 ára.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, bendir á að finnsk börn komi einna best út úr Pisa-könnunum. Þar byrja börn sjö ára í skóla en sex ára börnin eru í forskóla þar sem áhersla er á leik, samskipti, hreyfingu og fleiri þætti líkt og í leikskólum hér á landi.

Þá telur Jóhanna það ekki koma til með að bæta námsárangur barna að byrja skólagöngu fyrr og setur fyrirvara við að það sé þjóðahagslega hagkvæmt.

„Það hafa allar rannsóknir sýnt okkur, að börn á þessum aldri læra í gegnum leik,“ segir Jóhanna. „Þau læra betur í gegnum leik heldur en með formlegum, beinum kennsluaðferðum og ég held að áður en svona ákvarðanir eru teknar þurfi að líta til þeirra rannsókna sem sýna okkur að þetta gefur ekki betri árangur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×