Innlent

Fíkniefnahundar leituðu á nemendum FB á leið í busaferð

Atli Ísleifsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá aðgerðum lögreglu í dag við FB.
Frá aðgerðum lögreglu í dag við FB. vísir
Fíkniefnahundar voru notaðir til að leita á nemendum Fjölbrautarskólans í Breiðholti sem voru á leið í busaferð fyrr í dag.

Magnús Ingvason, aðstoðarskólameistari FB, segir að ekkert hafi fundist á nemendunum og að þetta sé einungis gert í forvarnarskyni.

„Allir sem ætluðu í ferðina mættu með sinn farangur og allt var í góðu lagi,“ segir Magnús, en skólinn átti sjálfur frumkvæði að aðgerðinni. Magnús segir að þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem þetta er gert.

„Þetta hefur verið gert í eitt og eitt skipti og það eru einhver ár síðan þetta var síðast gert. Þá var leitað hátt og lágt í skólanum hérna. Þá fannst ekki neitt heldur. Við viljum að skólastarfið og skemmtanir á vegum skólans séu algjörlega fíkniefnalausar.“

Aðspurður um hvort nemendur hafi tekið vel í þetta segir Magnús að viðbrögðin hafi alls ekki verið slæm í dag.

„Þeir sem eru ekki með fíkniefni mæta bara, það er þefað af töskunum þeirra, ekkert finnst og þetta tekur skamman tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×