Innlent

Ferðaþjónustan fær 1% af rannsóknafénu

Sama er við hvern er talað, allir eru sammála um að rannsóknir á ferðaþjónustunni sárvanti.
Sama er við hvern er talað, allir eru sammála um að rannsóknir á ferðaþjónustunni sárvanti. Fréttablaðið/vilhelm
Ferðaþjónustan fær einn hundraðasta hluta af opinberu rannsóknafé atvinnuveganna. Árið 2007 runnu 70 milljónir til rannsókna í ferðaþjónustu, en þær eru rétt um 100 milljónir í dag.

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, segir fjármagn sem rennur til rannsókna á ferðamálum ótrúlega lágt miðað við það sem rennur til rannsókna innan annarra atvinnugreina. „Eitthvað í kringum 1% af öllu því fé sem rennur til rannsókna á atvinnuvegum fer í ferðamálin. Þar sem greinin er orðin okkar helsta leið til gjaldeyrisöflunar skýtur þetta skökku við,“ segir Edward.

Gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu hafa aukist mikið síðustu árin eins og kunnugt er, og voru árið 2012 alls 238 milljarðar, samkvæmt Hagstofu Íslands. Það gerir 23,5% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Tölur ársins 2013 verða enn hærri en fjölgun ferðamanna til landsins var 22% í lok ágúst.

Í þingsályktunartillögu um stefnumörkun í ferðamálum frá 2011 kemur fram að til rannsókna í iðnaði árið 2007 fóru tæp 55% af heildarframlögum til atvinnuvegarannsókna. Til rannsókna í fiskiðnaði og landbúnaði runnu 34,9%. Alls voru rannsóknir í þessum greinum styrktar fyrir um 11,2 milljarða króna. Rannsóknir á orkuframleiðslu og dreifingu fengu 1,3 milljarða, eða tæp 10% af því rannsóknafé sem var í boði. Ferðaþjónustan fékk þetta ár um 70 milljónir en þær eru rétt um 100 milljónir í dag, að því er næst verður komist. Nýja greiningu á hlutföllum á milli atvinnuveganna er hins vegar ekki að finna.

Edward H. Huijbens
Edward segir að efling fagmennsku og þekkingar meðal þeirra sem starfa í ferðaþjónustu sé undirstaða arðsemi í greininni. „Gæði þjónustu munu skera úr um gæði upplifunar gesta og þannig orðspor landsins sem ferðamannalands.“ 

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur gert þetta að umtalsefni, meðal annars á aðalfundi samtakanna í fyrra. Hann sagði að lítil þekking á ferðaþjónustunni og fátæklegar grunnrannsóknir væru greininni hættulegar og í engu samhengi við þá áherslu sem lögð er á ferðaþjónustuna sem vaxtarbrodd í íslensku samfélagi.

Hér má vísa til nýlegrar skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group, sem kynnt var í Hörpu fyrir fáum dögum. Í skýrslunni er víða vitnað til mikilvægis rannsókna, og þá sem einnar undirstöðu þess að greinin vaxi og dafni eins og vonir standa til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×